149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við, í merkingunni ríkið væntanlega, áttum heldur ekki fjármagnið þegar höftin voru sett á. Og það er rétt að þau voru sett á með vísan til þess að aðstæður væru einstakar, það væri ákveðið efnahagslegt neyðarástand sem kallaði á óhefðbundnar aðgerðir. En þess vegna var það látið fylgja sögunni að allar aðgerðir sem kynntar voru þyrftu að haldast í hendur, eitt þyrfti yfir alla að ganga, það væri ekki hægt að ganga þannig frá málum að ætlast væri til þess að einhver hluti þeirra sem þarna var undir tæki á sig byrðar, en aðrir gætu hagnast á því að neita þátttöku og bíða, fleyta rjómann ofan af árangrinum, sem við vorum alltaf sannfærð um að næðist, vel að merkja, þótt hann hafi jafnvel orðið enn meiri en við vonuðum. Við vorum alltaf sannfærð um að árangur næðist. En akkúrat þess vegna þurfti það að vera tryggt frá upphafi að eitt yrði látið yfir alla ganga (Forseti hringir.) og þeir sem ekki vildu vera með þyrftu að taka afleiðingunum af því. Nú er vikið frá þeirri grundvallarstefnu.