149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Ég hef sjaldan séð nokkurn mann jafn önugan yfir því að flytja góð tíðindi, ef hv. þm. Óli Björn Kárason trúir því raunverulega að hann sé boðberi góðra tíðinda hér. Hann er alla vega mættur með klapplið með sér sem hefur staðið fyrir sínu. Að því litla marki sem hann hefur útskýrt hvaða pólitík búi hér að baki finnst mér vera fullkominn samhljómur með því sem hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar segir og svo hv. þm. Þorsteinn Víglundsson sem er málflutningur sem við könnumst við frá hverju stigi þeirra miklu átaka sem íslensk stjórnvöld hafa þurft að standa í til að verja grundvallarhagsmuni þjóðarinnar.

Menn hafa iðulega fengið að heyra að ekki væri hægt að ganga á hlut útlendinga með þeim hætti sem talað væri um. Við þyrftum að halda landinu opnu, gætum ekki sett höft vegna þess að við þyrftum að greiða fyrir frjálsum viðskiptum. Þá myndu fjárfestarnir streyma til landsins. Alltaf sama sagan. Nú segir hv. þingmaður líka, rétt eins og hv. þm. Þorsteinn Víglundsson: Grundvallarforsendurnar eru ekki lengur fyrir hendi, forsendurnar fyrir því að ráðast í slíkar aðgerðir. Það er áhugavert að heyra þetta.

Ég hef reyndar rakið það í allmörgum ræðum hér hvers vegna þessi rök eigi ekki við en ég hef líka nefnt að þessi rök heyrðust einmitt mjög oft þegar verið var að undirbúa aðgerðirnar og svo eftir að þær voru kynntar 2015 því að strax frá því að ný ríkisstjórn tók við árið 2013 hófust umfangsmiklar efnahagslegar aðgerðir og þær fóru fljótt að skila sér. Þegar fulltrúar íslenskra stjórnvalda hittu fyrir fulltrúa vogunarsjóðanna og kynntu þeim hvað stæði til, hvaða afarkostum í raun þeir stæðu frammi fyrir, drógu þessir menn upp úr fórum sínum blöð og sögðu: Sjáið þið bara hér. Það stendur í þessari skýrslu að forsendurnar sem þið ætluðuð að byggja þessa ákvörðun á séu ekki lengur til staðar.

Hvaðan voru þessi blöð? Frá sama Seðlabanka Íslands og hv. þm. Óli Björn Kárason vitnar sem mest í núna því til stuðnings að forsendur séu ekki lengur til staðar til að verja þann rétt sem Ísland tilkynnti árið 2015 að það myndi verja. Forsendurnar eru ekki lengur til staðar að mati formanns efnahags- og viðskiptanefndar, ekki frekar en forsendurnar voru til staðar 2015 að mati fulltrúa vogunarsjóðanna. Það er grundvallaratriði í þessu, og það verður ekki fram hjá því litið, að þegar aðgerðirnar voru kynntar voru menn meðvitaðir um að þær myndu skila árangri og staðan yrði fljótt mun betri.

Þess vegna þurfti endanleikinn, sem ég hef rætt nokkrum sinnum um, að liggja fyrir, svo að menn gætu ekki beðið þess að fleyta rjómann af árangrinum á meðan aðrir bæru kostnaðinn. Hvers konar land viljum við vera, segir hv. þingmaður rétt eins og á fyrri stigum þegar verið var að verjast ásókn og ólögmætum kröfum að utan. Ja, við viljum væntanlega vera land sem stendur á rétti sínum og land sem mark er takandi á. Nú eru liðin meira en 20 ár frá því að fjármálakrísan mikla í Asíu reið yfir. Þar, til að mynda í Suður-Kóreu, eru þeir sem ekki féllust á að taka þátt í lausnum stjórnvalda enn fastir inni. Ég veit ekki til þess að þar séu þingmenn að reyna að smeygja í gegn frumvörpum til að losa viðkomandi aðila út. Nei, þeir vissu hvað biði þeirra ef þeir tækju ekki þátt í þeim aðgerðum sem menn töldu nauðsynlegar. Ég veit ekki betur en að Suður-Kóreu vegni alveg ágætlega efnahagslega og menn vilji gjarnan eiga viðskipti við það land, land sem þá hefur sýnt að það meinti það sem það tilkynnti um árið 1998.

Hér segir hins vegar hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar að forsendur séu ekki lengur til staðar til að fylgja því plani sem lagt var upp með. Þegar hann er spurður hvað hafi breyst frá 2016, þegar Seðlabankinn kynnti sín áform, er því svarað sem meginsvari að aflandskrónustabbinn sé minni en þá. Með öðrum orðum, nákvæmlega það sem ég er búinn að vera að tala um: Það er viðurkennt af formanni efnahags- og viðskiptanefndar: Já, af því að það eru svo margir farnir út geta eftirlegukindurnar fengið betri samninga.