149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þykir áhugavert í framhaldi af ræðu hv. þingmanns að velta fyrir mér þeirri mynd sem blasir við ef við skoðum þróunina bara frá því á vormánuðum 2016.

Við höfum að sjálfsögðu verið að rifja upp að þetta sé allt byggt á stóra planinu frá 2015 eða hafi átt að vera það, meðferð aflandskrónanna. En leyfum okkur að líta ekki lengra aftur en til 2016. Þá birtust fréttir eins og þessi úr Fréttablaðinu undir fyrirsögninni: „Ætla að setja eigendum aflandskróna afarkosti“. Þar er sagt frá því að boðað hafi verið til þingfundar í skyndi til þess að kynna frumvarp hæstv. fjármálaráðherra, sem var sami fjármálaráðherra og nú er, til þess að setja af stað ákveðnar aðgerðir til að losa um þá 319 milljarða sem þá voru til staðar af þessum svokölluðu aflandskrónum. Og hverjar voru aðstæður í efnahagslífinu þegar stjórnvöld töldu það réttlætanlegt að setja eigendum aflandskróna afarkosti, eins og það er orðað hér, og boða til þingfundar í skyndi? Þá voru horfur í efnahagslífinu betri en þær eru núna. Þá voru horfur með gjaldeyrisöflun betri en þær eru núna.

Finnst hv. þingmanni það ganga upp, eins og við heyrðum aðeins áðan frá hv. þingmanni, formanni efnahags- og viðskiptanefndar, að aðstæður nú í efnahagslífinu réttlæti ekki þær aðgerðir sem voru taldar (Forseti hringir.) það réttlætanlegar 2016 að boðað var til þingfundar í skyndi til að setja þær af stað?