149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[11:07]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Forseti. Í sinni einföldustu mynd er málið sem við ræðum nú þannig vaxið að árið 2015 voru kynntar aðgerðir stjórnvalda til að fást við 1.200 milljarða kr. vanda, svokallaða snjóhengju, fjármagn sem sýnt þótti að myndi leita hratt úr landinu ef fjármagnshöft yrðu afnumin. 1.200 milljarðar kr. Þá kom skýrt fram að aðgerðirnar myndu þýða að allir þyrftu að leggja sitt af mörkum, afhenda í rauninni ríkinu eignir með ýmsum hætti svo hægt yrði að aflétta höftum. Það sem liggur nú fyrir tillaga um er að af þessum 1.200 milljörðum yrði öllum greitt gjald til að fá að losa þá úr landi nema síðustu 84 milljörðunum. Af 1.200 milljörðunum eru það bara síðustu 84 milljarðarnir þar sem ríkið ætlar ekki að innheimta neitt gjald fyrir útgöngu. Með öðrum orðum: Það á að verðlauna þá sérstaklega sem hafa þráast mest við að taka þátt í því að gera losun hafta og endurreisn íslensks efnahagslífs mögulega. Þeir fá einir þau verðlaun að fá að taka út sitt fjármagn án nokkurs gjalds. Þetta stefnir í að Alþingi Íslendinga samþykki í dag. Það gengur að sjálfsögðu þvert gegn því sem lagt var upp með í áformunum sem kynnt voru 2015 þar sem megináherslan var á jafnræði og að allir þyrftu að leggja sitt af mörkum og menn yrðu síst af öllu verðlaunaðir fyrir að fara gegn þeirri stefnu sem var nauðsynleg til að hægt væri að aflétta höftum. En nú er niðurstaðan sú að eingöngu þeir sem ekki voru tilbúnir að taka þátt í þessu fá að taka sitt fjármagn út án þess að greiða af því gjald til ríkisins með einum eða öðrum hætti.

Ég held að það sé við hæfi nú við 3. umr. að rifja aðeins upp aðdragandann að þessum aðgerðum og svo aðdragandann að þeirri stöðu sem nú er komin upp með þessu frumvarpi. Fyrir kosningar 2013 boðaði ég það að vegna umfangs snjóhengjuvandans þyrfti að tryggja að verulegur hluti þessara eigna, sem voru sannarlega ekki eign ríkisins, yrði afhentur ríkinu ef það ætti að vera hægt að aflétta höftum. Ég tók fram að til væru leiðir til að ná þessum peningum. Ég held að mér sé óhætt að segja að hæðst hafi verið að þeim fullyrðingum, svo vægt sé til orða tekið, því haldið fram að þær væru mesta kosningayfirboð sögunnar, væru ólögmætar, væru óframkvæmanlegar, gengju aldrei upp, væru bull. Ég fullyrti þetta engu að síður og að loknum kosningum eftir myndun ríkisstjórnar hófst þegar vinna við að hrinda þessu í framkvæmd. Upphaflega var lagður á sérstakur skattur á slitabú bankanna. Það var eitt af því sem hafði verið sagt óframkvæmanlegt, það væri ekki hægt að skattleggja þrotabú eða slitabú, og allra síst væri hægt að skattleggja skuldir. Það var samt gert og þannig var hægt að fjármagna skuldaleiðréttingu íslenskra heimila með verðtryggð lán sem höfðu farið sérstaklega illa út úr falli krónunnar.

Næsta skref var að ráðast til atlögu við höftin og eins og ég gat um áðan voru kynnt heildstæð áform um hvernig það yrði gert í maí 2015. Á meðan á vinnunni stóð höfðu menn ekki farið varhluta af því að þeir sem höfðu hér gríðarlegra hagsmuna að gæta, aflandskrónueigendur og slitabúin, ætluðu ekki auðveldlega að sætta sig við það sem boðað hafði verið, þeir yrðu látnir greiða sérstakt gjald fyrir að fá að taka fjármagn sitt úr höftum. Það er alveg óhætt að orða það þannig að það hafi komið til átaka milli stjórnvalda og þessara aðila sem tóku á sig ýmsar birtingarmyndir, enda voru þeir reiðubúnir að verja gríðarlegu fjármagni í hagsmunagæslu innan lands og beita ýmsum aðferðum til að hámarka hagsmuni sína. Þeir voru m.a. um tíma með allar stærri lögfræðistofur landsins í vinnu fyrir sig á einn eða annan hátt og stóran hluta af almannatengslastofum, svo dæmi séu nefnd, og beittu ýmsum aðferðum og ýmiss konar þrýstingi. Engu að síður gerðu stjórnvöld þessum aðilum það ljóst að áformunum yrði fylgt eftir og þegar kom að kynningunni í maí 2015 lögðum við áherslu á að sú kynning yrði skýr og það færi ekkert á milli mála, léki enginn vafi á því hvaða aðferðum ætti að beita og hver niðurstaðan ætti að verða. Menn myndu sjá sér hag í því að spila með en alls ekki að streitast á móti. Og það varð niðurstaðan að í fyrri áfanganum sem sneri að slitabúunum voru afhentir mörg hundruð milljarðar til ríkisins. Meiri hluti eignanna sem þar var um að ræða, snjóhengja slitabúanna, var afhentur ríkinu og var að sjálfsögðu einsdæmi, hafði aldrei gerst nokkurs staðar áður í heiminum. Þetta voru 3/4 hlutar snjóhengjunnar, þ.e. það sem sneri að slitabúunum. 1/4 var aflandskrónurnar og þær voru kynntar og lausnin þar samhliða þessu, sams konar aðferð sem þó tók að sjálfsögðu mið af því að þar var um aðeins eðlisólíkan hlut að ræða. Aðferðin var sú sama að því leyti að tryggja að menn sæju sér ekki hag í öðru en að spila með og afhenda hluta þessara eigna. Talað var um, og kom raunar fram í fjölmiðlum, að það hlytu að þurfa að verða a.m.k. 30–40% af eignunum sem þar voru undir.

Þetta átti að gerast í október 2015 enda mikilvægt að hafa samfellu í þessu og að allt saman gengi hratt fyrir sig. Það urðu tafir á því að Seðlabankinn væri tilbúinn að stýra þeim aðgerðum sem boðaðar höfðu verið en þó höfðum við fengið til liðs við okkur mjög færa erlenda ráðgjafa, m.a. hugsanlega fremsta sérfræðing heims á sviði svona útboða, Paul Klemperer, prófessor við Oxford-háskóla, sem hafði m.a. stýrt slíkum aðgerðum fyrir Englandsbanka og Seðlabanka Bandaríkjanna með góðum árangri. Engu að síður urðu tafir á framkvæmdinni og ríkisstjórnin rak mjög reglulega á eftir því að þessu yrði hrint í framkvæmd á þann hátt sem lagt var upp með. Loks sá til lands í því og málið skyldi klárað vorið 2016.

Eftir að ég steig til hliðar sem forsætisráðherra og tilkynnti þá að ég gerði það sérstaklega til að þessi mikilvægu áform gætu klárast og ríkisstjórnin gæti unnið að þeim ótrufluð fór hins vegar að halla undan fæti. Seðlabankinn kynnti jú uppboð, kynnti það í maí og það skyldi fara fram í júní, en það var aðeins önnur aðferð en útlistuð hafði verið í áformum stjórnvalda, þó aðgerð sem átti að leysa málið í eitt skipti fyrir öll. Á það féllust eigendur aflandskrónanna ekki nema í mjög litlum mæli, vildu fá betri kjör og fóru að rifja upp ýmis þau rök sem hafði verið beitt, m.a. í áróðri vogunarsjóðanna vegna slitabúanna — þetta voru vogunarsjóðir í báðum tilvikum — og var sagt að kjörin væru ekki ásættanleg, þetta væri ekki lagalega framkvæmanlegt, efnahagsforsendur væru ekki til staðar til að gera svona miklar kröfur o.s.frv., allt kunnuglegt stef. Svo var haldið áfram í lögfræðinni og málarekstri og m.a. kvartað til Eftirlitsstofnunar EFTA. Eftirlitsstofnun EFTA skilaði algjörlega skýrri niðurstöðu og afdráttarlausri um að aðgerðirnar eins og stjórnvöld hefðu kynnt þær væru heimilar samkvæmt EES-samningnum. Það breytti samt ekki því að undanhaldið hélt áfram. Ég hef rakið það hér í nokkrum ræðum í hverju það birtist og studdist þar ekki við annað en tilkynningar Seðlabankans sjálfs. Í hverju skrefi var gefið meira og meira eftir. Hver urðu þá viðbrögð þessara aðila? Voru þau að þakka fyrir að gefið hefði verið eftir svona oft? Nei, að sjálfsögðu urðu viðbrögðin þau að ætlast til þess að enn þá meira yrði gefið eftir.

Svona hélt þetta áfram næstu árin og á sama tíma horfðum við á eftirgjöfina í málefnum Arion banka sem fól í sér ákveðinn viðsnúning frá því sem þó hafði náðst í málefnum slitabúanna. Gagnvart aflandskrónunum var undanhaldinu haldið áfram, þó þannig að enginn fékk að flytja slíkt fjármagn úr landi án þess að greiða ríkinu gjald. Gjaldið sem menn þurftu að greiða fyrir að komast út lækkaði bara að jafnaði. Í því fólst undanhaldið. En þar til nú hafa allir eigendur þessara 1.200 milljarða kr. þurft að greiða gjald fyrir að losa fjármagnið og taka þannig þátt í efnahagslegri endurreisn landsins. Nú ber hins vegar svo við að þeir sem hafa allan þennan tíma streist á móti, verið síst tilbúnir til þess að taka þátt í efnahagslegu endurreisninni, verið síst tilbúnir til að taka þátt í að búa til skilyrðin fyrir losun hafta — nú hyggst þingið væntanlega samþykkja frumvörp um að þeir einir fái að taka sitt fjármagn út án þess að greiða af því nokkurt gjald.

Hversu mikið hefði það gjald verið? Ja, ef við miðum bara við besta tilboð Seðlabankans frá því í júní 2016 næmi gjaldið um 23 milljörðum kr., en varla er eðlilegt að miða við besta verðið sem var boðið þeim sem vildu vera fyrstir til að taka þátt. Eðlilegra er að líta frekar til 30–40% viðmiðsins. Það er því alveg óhætt að fullyrða að á vissan hátt sé hér um að ræða eftirgjöf upp á um 30 milljarða kr., 30 milljarða kr. verðlaun frá stjórnarmeirihlutanum og stuðningsflokkum hans til þeirra sem voru síst tilbúnir að taka þátt í þeim aðgerðum sem sneru við efnahagslegri stöðu landsins. Það eru ákaflega sérkennileg skilaboð fyrir stjórnvöld að senda að aðferðir eins og beitt hefur verið í þessu máli virki betur en að fylgja því sem stjórnvöld leggja upp með. Með öðrum orðum að það sé ekkert endilega að marka stjórnvöld á Íslandi þegar þau segja: Svona verður þetta. Jafnvel sé hægt að beita aðferðum eins og beitt hefur verið í þessu tilviki og gengu það langt að eigendur aflandskróna blönduðu sér í kosningabaráttu fyrir alþingiskosningar á Íslandi, reyndu að hafa áhrif á niðurstöðu alþingiskosninga og stefnu stjórnvalda. Það lá svo sem fyrir að þeir hefðu viljað hafa stefnu stjórnvalda allt aðra, þeir voru ófeimnir við að reka þann áróður, en að menn skyldu reyna að hafa áhrif á úrslit kosninganna til að ná fram slíkri stefnubreytingu var algjör nýlunda hér á landi og þótt víðar væri leitað og raunar undrunarefni að það mál skuli ekki hafa verið rannsakað meira en raun bar vitni.

Nú hefur sú stefnubreyting sem þessir aðilar börðust fyrir náð fram að ganga. Þá reyna menn að svo litlu leyti sem reynt hefur verið að rökstyðja þetta frumvarp, aðeins einn þingmaður, sem eðli máls samkvæmt þurfti að flytja nefndarálit, hefur haldið ræður um þetta mál í 2. umr. og aðeins einn þingmaður hélt ræðu um málið í 1. umr., fjármálaráðherra sem kláraði það á mettíma, rúmum sex mínútum, og hafði þó 30 mínútur til að gera grein fyrir málinu. Það eina sem heyrist af rökstuðningi er að efnahagslegar forsendur séu ekki lengur til staðar til að klára mál með þeim hætti sem lagt var upp með. Þetta er að sjálfsögðu fullkomin fásinna. Í fyrsta lagi nægir að bera efnahagslegar forsendur nú saman við forsendurnar sem menn stóðu frammi fyrir sumarið 2016, þegar horfur voru þó talsvert betri en þær eru nú, m.a. um áframhaldandi vöxt í gjaldeyrisöflun. Á þeim tíma var Seðlabankinn þó ekki til í að bjóða betur en 190 kr. fyrir evruna. Það var það lægsta sem bankinn var tilbúinn að taka þó að skráð gengi krónunnar væri svipað á þeim tíma og það er nú.

Nú þegar efnahagshorfur eru lakari en þær voru sumarið 2016 á margan hátt og gengið er á svipuðum stað reyna menn að styðjast við efnahagslegar forsendur og breytingar á þeim til að rökstyðja að það þurfi að gefa allt eftir gagnvart þessum síðustu aðilum. Þau rök eru í sjálfu sér nógu slæm en verra er þó að það var vitað frá upphafi að efnahagslegar forsendur myndu lagast til mikilla muna um leið og þessum aðgerðum öllum yrði hrint í framkvæmd. Við treystum á það. Þess vegna var vitað að það væri hætta á því að einhverjir kynnu að vilja bíða þess að efnahagslegar aðstæður löguðust og fara þá fyrst fram á að fjármagnið yrði losað. Það var gert ráð fyrir þessu. Þess vegna kom fram með mjög skýrum hætti og ítrekað í áformum stjórnvalda að tryggja þyrfti að menn myndu ekki hagnast á því að verða það sem kallað var eftirlegukindur, með öðrum orðum að ef menn ætluðu að beita þessari aðferð, sem þeir sem halda á þessum 84 milljörðum hafa beitt, færu þeir ekki betur út úr því en þeir sem voru tilbúnir að taka þátt í endurreisnarstarfinu. En nú er niðurstaðan einmitt sú að eftirlegukindurnar skuli verðlaunaðar alveg sérstaklega.

Það hefur verið áhugavert í umræðu um þetta mál að rifja upp umræðu í fjölmiðlum og frásagnir af atburðarásinni allri af ítrekuðum tilraunum til að í raun þóknast og semja við þessa aflandskrónueigendur og bregðast við kröfum þeirra með viðvarandi undanhaldi. Ég ætla að vitna í eina þessara greina. Hún ber yfirskriftina „Lokahnykkurinn“. Það vill svo til að hún er skrifuð í apríl 2016, þ.e. á þeim tíma þegar átti að klára málið, eins og ég nefndi hér fyrr í ræðu. Lokakaflinn í greininni, sem er eftir Hörð Ægisson, viðskiptablaðamann og núverandi ritstjóra Markaðarins, er svohljóðandi:

„Stjórnvöld hljóta að horfa til þess, rétt eins og gert var gagnvart kröfuhöfum gömlu bankanna, að eigendur aflandskróna njóti ekki bættrar erlendrar stöðu þjóðarbúsins með neinum hætti við útgöngu úr höftum. Þess í stað mun sú góða staða sem hefur orðið til vegna viðvarandi mikils viðskiptaafgangs undanfarin ár verða nýtt til að koma til móts við mörg hundruð milljarða króna uppsafnaða erlenda fjárfestingarþörf íslenskra lífeyrissjóða og fyrirtækja. Til að tryggja slíka niðurstöðu í þessu næsta stóra skrefi stjórnvalda við losun hafta þá er nauðsynlegt að reiða sig á trausta pólitíska forystu fremur en brigðula dómgreind embættismanna.“

Ég hef svo sem oft og tíðum gagnrýnt kerfisræðið sem er orðið mikið á Íslandi og reyndar víða annars staðar og að stjórnmálamenn ruglist of oft á hlutverki sínu og embættismanna. Með því er ég ekki að gagnrýna embættismenn sérstaklega því að ábyrgðin er hjá stjórnmálamönnum og á að vera þar. Embættismenn gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki og gerðu það t.d. við undirbúning og framkvæmd þeirra aðgerða sem ég rakti hér áðan. Embættismennirnir marka hins vegar ekki stefnuna og þeir taka ekki ákvarðanirnar — eða eiga ekki að gera það. Þegar þarf að taka stórar ákvarðanir og bregðast við stórum úrlausnarefnum þarf pólitískar lausnir og pólitíska forystu. Ég efast um að hún hafi verið til staðar í þessu máli að undanförnu. Við sjáum þetta mál kynnt hér á forsendum stofnunar fremur en á pólitískum forsendum. Ég rakti það áðan að í hátt í sólarhringsumræðu um þetta mál hefði aðeins einn stuðningsmaður þess treyst sér til að koma hér upp og verja það en ræður hans snerust reyndar annars vegar um að lesa nefndarálit og hins vegar um dagsetningar og að menn hefðu ekki talað nógu mikið á einum tímapunkti og of mikið á öðrum og annað eftir því.

Í andsvörum heyrðist aðeins bregða fyrir orðum eins og eignaupptaka, að hér væri verið að boða eignaupptöku ef menn ætluðu ekki að hleypa þessu fjármagni öllu út án einhverrar gjaldtöku. Þetta er orð sem ég kannast við frá því í kosningabaráttunni 2013 og heyrði svo sannarlega oft þegar verið var að vinna að þeim aðgerðum sem svo var hrint í framkvæmd. En það kom náttúrlega fyrst og fremst frá andstæðingum málsins, þeim sem vildu koma í veg fyrir að það næði fram að ganga. Við getum ímyndað okkur hvort það fólk, sem heldur því fram að það sé eignaupptaka að leggja gjald á síðustu 84 milljarðana af þeim 1.200 sem búið er að leggja gjald á að öðru leyti, hefði hrint í framkvæmd áformum eins og lýst var í kynningu 2015. Þetta er ekki eignaupptaka vegna þess að eitt átti yfir alla að ganga til að gera samfélaginu kleift að aflétta höftum. Það virðist hins vegar ekki stefna í að sú verði niðurstaðan, að eitt gangi yfir alla, því að síðustu 84 milljarðarnir fara út án gjaldtöku.

Svo heyrum við reyndar líka lesið upp úr sérkennilegum rökum um að það þurfi að klára þetta hratt vegna þess að hluti þeirra sem eiga þessa 84 milljarða eigi ríkisskuldabréf sem séu komin á gjalddaga og menn vilji gjarnan hafa þá menn rólega í þeirri von að þeir fjárfesti í nýjum ríkisskuldabréfum í stað þess að fara með fjármagnið annað. Óttast jafnvel að þessir aðilar taki þá upp á því að selja aflandskrónurnar sínar á aflandsmarkaði. Það er svolítið sérkennilegt ef menn hafa raunverulega áhyggjur af því að þessir aðilar gætu tekið upp á því að selja aflandskrónurnar sínar á aflandsmarkaði, augljóslega á afslætti, fremur en að bíða í nokkra daga eftir afgreiðslu þessa máls sem gerir ráð fyrir að þeir fái allan peninginn. Þá er því haldið fram að þetta sé í eigu einhverra sjóðstýringarfyrirtækja sem hafi það sem vinnureglu að eiga ekki laust fé, en engum hefur dottið í hug að spyrja hvort fé í höftum geti talist laust fé.

Þessir tilburðir til að hraða málinu í gegn hófust strax í desember þegar það átti að lauma því inn á síðasta degi þingsins með þeim rökum að það þyrfti að komast í umræðu til að róa markaðinn eins og það var orðað. Málið komst ekki í umræðu og ég held að markaðurinn hafi ekki tekið eftir því. Þau rök sem eru tínd til, að efnahagsaðstæður leyfi ekki lengur að menn klári planið eða að einhverjir sem eigi ríkisskuldabréf geti verið vænlegir fjárfestar og því þurfum við að hraða málinu til að styggja þá ekki, eru ekki rök fyrir því að hverfa frá plani sem hefur skilað þeim árangri sem þessar aðgerðir hafa skilað, aðgerðir sem hafa skilað meiri efnahagslegum viðsnúningi en nokkur dæmi eru um í nokkru landi, a.m.k. í seinni tíð. Ég skora á einhvern að benda mér á annan slíkan viðsnúning, hvort sem litið er til fjárhagsstöðu ríkisins eða þátta sem af því leiða, betri kjara, aukins hagvaxtar, aukins uppgangs í samfélaginu, og þetta allt á mettíma. Til samanburðar lenti Bretland í miklum hremmingum eftir seinni heimsstyrjöldina og varð í raun gjaldþrota 1949. Snjóhengja þess mikla iðnveldis var, ef ég man rétt, um 30% af landsframleiðslu þess lands og það tók landið 30 ár að bræða þá snjóhengju. Snjóhengjan á Íslandi var 112% af landsframleiðslu og var fjarlægð með einni aðgerð eða hefði verið fjarlægð með einni aðgerð ef málið hefði verið klárað á þann hátt sem lagt var upp með.

Einhverjir hafa áhyggjur af því að hér sitji þeir sem ekki hafa viljað spilað með áfram í höftum. Þá má líka líta til annarra landa og t.d. Asíukrísunnar, fjármálakrísunnar í Asíu, á tíunda áratugnum sem var mjög erfið fyrir þau lönd sem í henni lentu. Þar eru enn dæmi um að þeir sem ekki vildu spila með til að leysa málið sitji fastir eins og í Suður-Kóreu þar sem þeir hafa setið fastir frá 1998, en hér heyrum við gamla sönginn um að ekki megi styggja alþjóðasamfélagið, alþjóðafjármálakerfið og þá trú að besta leiðin til að fá menn til að hafa trú á Íslandi, besta leiðin til að bæta trúverðugleika Íslands sem fjárfestingarkosts, sé að gefa eftir þeim sem síst eru viljugir til samstarfs um efnahagslega uppbyggingu Íslands.

Þetta er niðurstaðan sem stefnir í, af 1.200 milljarða kr. snjóhengju eru aðeins eftir 84 milljarðar. Þessir 84 milljarðar eru eini peningurinn af 1.200 milljörðum sem menn eiga ekki að greiða sérstakt gjald fyrir að fá afhenta. Þetta leggur stjórnarmeirihlutinn hér fram, studdur af að því er virðist öllum flokkum nema Miðflokknum, en hefur þó ekki treyst sér til að mæta hér í ræðustól og verja málið að nokkru marki og þykir mér það benda til þess að menn séu ekki eins stoltir af málinu eins og þeir vilja vera láta í þau fáu skipti sem þeir yfir höfuð tjá sig um málið.

Að sjálfsögðu vona ég að þetta verði ekki niðurstaðan en heiðarleg tilraun Miðflokksmanna til að fá fram almennilega pólitíska umræðu um þetta sem vonandi gæti haft einhver áhrif á afstöðu manna hefur að því er virðist í engu hreyft við þeim (Forseti hringir.) sem ætla að fylgja þessu máli í blindni.