149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[12:05]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir ræðuna. Ég held að það sé engin ástæða fyrir okkur að fara sérstaklega yfir þau atriði sem við erum ósammála um í þessu máli. Það liggur fyrir að við erum ósammála um hvaða forsendur hafi breyst og annað slíkt, en það er eitt atriði sem mig langar að spyrja hv. þingmann, framsögumann meirihlutaálits efnahags- og viðskiptanefndar, um. Það snýr að því hvort hann telji nauðsynlegt að tengja þetta tvennt saman, þá útfærslu sem hér liggur fyrir varðandi þennan 84 milljarða kr. stabba aflandskrónueigna og síðan það að slaka á innflæðishöftum eða afnema þau, samanber það sem fram kemur í umsögn Seðlabankans og síðari greinum frumvarpsins sem hér liggur fyrir.

Telur hv. þingmaður að það hefðu verið einhver vandkvæði við það að slaka á innflæðishöftunum eða afnema þau sem frístandandi aðgerð?