149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[13:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Árið 2015 voru kynntar leiðir til að takast á við snjóhengjuna svokölluðu, 1.200 milljarða kr. sem líkur voru á að myndu streyma úr landi ef ekkert yrði að gert þegar höft yrðu afnumin. Þær aðgerðir sem þá voru kynntar fólu í sér endanlega heildarlausn sem gekk út á það að menn þyrftu hver og einn, eigendur þessara 1.200 milljarða, að leggja sitt af mörkum til að gera haftalosun mögulega. Hér er verið að leggja til og að mér sýnist samþykkja að allir þeir sem áttu þessa 1.200 milljarða greiði framlag fyrir að losa peningana nema þeir sem eru eigendur síðustu 84 milljarðanna. Allir greiði nema þeir sem voru síst reiðubúnir til að taka þátt í því að hægt væri að aflétta höftum og endurreisa íslenskt efnahagslíf. Þetta setur stórhættulegt fordæmi (Forseti hringir.) og sýnir að það er hægt að brjóta íslensk stjórnvöld á bak aftur.