149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[13:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er rangt að embættismennirnir sem svo margir þingmenn fylgja hér í blindni hafi sýnt fram á að eitthvað í málflutningi Miðflokksins um þetta mál hafi verið rangt. Það er líka alrangt sem hv. þm. Þorsteinn Víglundsson segir að eitthvað í málflutningi Miðflokksins hafi verið rangt enda treysti hv. þingmaður sér ekki til að halda eina einustu ræðu til að sýna fram á eitt dæmi um slíkt. Hann kom hins vegar upp í andsvar og oftar en einu sinni til að halda því fram að Miðflokkurinn væri að leggja til eignarnám, eignaupptöku. Þetta var kunnuglegt orðaval því að þetta fengum við iðulega að heyra þegar áformin voru undirbúin og svo kynnt 2015, að þau fælu í sér eignarnám. En frá hverjum? Frá þeim sem vildu fyrir alla muni koma í veg fyrir að þau næðu fram að ganga. Við getum rétt ímyndað okkur hvort það fólk sem stendur fyrir þessu máli nú og telur það eignarnám að fylgja eftir fyrri áformum hefði hrint slíkum áformum í framkvæmd.