149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[13:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Það er synd að sjá í hvað stefnir í þessari atkvæðagreiðslu. Sannast nú enn á ný og hefur gert það alloft áður að undanförnu að það eru í rauninni bara tveir flokkar á Alþingi, Miðflokkurinn [Hlátrasköll í þingsal.] og samtryggingin.

Ég á von á því að sjá áfram þessa nýju samtryggingu stjórnmálanna sem er reyndar leidd yfirleitt af embættismönnum og mati þeirra á því hvað best sé að gera hverju sinni. Það er einfaldasta leiðin fyrir stóran hóp að sameinast um stefnu með því að fylgja einfaldlega því sem embættismennirnir segja. Það þarf hins vegar meiri pólitík í stjórnmálin á Íslandi. Þetta mál er gott dæmi um það. Sá árangur sem hefur náðst fram að þessu hefði ekki náðst án pólitískrar stefnu og fyrir henni mun Miðflokkurinn standa hér eftir sem hingað til og í þessari atkvæðagreiðslu og þess vegna segi ég nei.