149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

staða sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

187. mál
[13:47]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um stöðu sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp fulltrúa sveitarfélaga á Suðurnesjum og fimm sérfræðinga úr forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti til að vinna tímasetta aðgerðaáætlun um hvernig efla megi þjónustu ríkisins við íbúa á Suðurnesjum og mæta mikilli fólksfjölgun þar. Starfshópurinn skili skýrslu með niðurstöðum eigi síðar en 1. júní 2019. Forsætisráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins.“

Tillaga þessi var flutt á 148. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Hún er núna endurflutt af þingmönnum úr Suðurkjördæmi.

Það er löngu tímabært að tekið sé á málefnum Suðurnesjabúa með skipulögðum hætti og að gerð sé aðgerðaáætlun til að styrkja samfélagið þar sem íbúar eru nú um 26.000 og hafa undanfarinn rúman áratug orðið fyrir miklum áföllum sem reynst hefur erfitt að yfirvinna. Brotthvarf varnarliðsins frá Keflavíkurflugvelli árið 2006 eftir 55 ára veru olli straumhvörfum í atvinnulífi á Suðurnesjum þegar um 600 störf voru lögð niður. Suðurnesin urðu illa úti í efnahagshruninu en atvinnuleysi jókst gríðarlega í aðdraganda hrunsins og í kjölfar þess og segja má að þar hafi annað áfall dunið yfir svæðið.

Nú er staðan hins vegar sú að íbúum á Suðurnesjum hefur fjölgað gríðarlega undanfarin ár eða um tæplega 5.000 manns á sex árum og hlutfallslega mest frá árinu 2015.

Frú forseti. Ég vil taka fram að þessi tala var 5.000 í haust, þ.e. í september þegar þessi þingsályktunartillaga var samin og henni dreift á Alþingi. Síðan hefur bæst í þennan hóp þannig að þetta er ekki alveg nákvæm tala en á henni má sjá að fjölgunin hefur verið umtalsverð.

Slíkri fólksfjölgun fylgja óhjákvæmilega margvíslegar áskoranir fyrir samfélagið á svæðinu og stór hluti nýrra íbúa er af erlendu bergi brotinn, talar ekki íslensku og þarfnast af þeim sökum meiri þjónustu og aðstoðar ýmissa félagslegra innviða en ella væri.

Heilbrigðisþjónusta og aðrir félagslegir innviðir stóðu veikir fyrir þegar herða tók á fólksfjölguninni. Samhliða fjölgun íbúa á svæðinu sem skýrist fyrst og fremst af stórauknum ferðamannastraumi til landsins og fjölgun starfa í tengslum við millilandaflug hefur húsnæðisskortur gert vart við sig. Fjöldi íbúa á Ásbrú þar sem bandarískir hermenn dvöldu á meðan herinn var hér á landi hefur tvöfaldast á undanförnum sex árum. Bandaríkjaher yfirgaf herstöðina sem varð við það hverfi í Reykjanesbæ þó að með lögum sem sett voru 2006 hafi bæjarfélaginu verið skylt að gefa ríkinu afslátt af fasteignagjöldum. Sá afsláttur nam í árslok 2016 rúmlega hálfum milljarði króna. Á sama tíma hefur ríkið selt eignir sem herinn skildi eftir fyrir marga milljarða króna.

Í úttekt sem ráðgjafarfyrirtækið Aton vann fyrir Reykjanesbæ á fjárveitingum til ríkisstofnana á Suðurnesjum koma fram skýrar tölulegar upplýsingar um að fjárframlög á hvern íbúa fari hratt lækkandi á Suðurnesjum. Flutningsmönnum þessarar tillögu þykir ótækt að á sama tíma og nauðsynlegt er að ráðast í bætur á vegum og almenningssamgöngum og auka við í menntun, til nýsköpunar og til uppbyggingar félagslegra innviða vegna framangreindra áskorana í tengslum við fólksfjölgun og vaxandi hlutfall erlendra íbúa sé staðan sú að ríkisframlög á hvern íbúa til heilbrigðismála og löggæslu, svo dæmi séu tekin, dragast saman.

Flutningsmenn eru meðvitaðir um að sveitarfélögin á Suðurnesjum vilja bjóða alla íbúa velkomna, jafnt innlenda sem erlenda, og veita þeim fyrsta flokks þjónustu. Það verður þó ekki gert án þess að ríkið sláist með í för. Hafa ber í huga að fólksfjölgunin kemur fyrst og fremst til vegna atvinnugreinar sem öll þjóðin nýtur góðs af.

Með þessari þingsályktunartillögu er lagt til að skipaður verði starfshópur fulltrúa ríkis og sveitarfélaga, eins og áður sagði, sem fari heildstætt yfir stöðu sveitarfélaganna fimm á Suðurnesjum með tilliti til þess sem að framan hefur verið rakið.

Frú forseti. Nú verð ég aftur að leiðrétta greinargerðina sem ég er að lesa hér upp með tillögunni vegna þess að frá því að tillögunni var dreift á Alþingi í september eru sveitarfélögin ekki lengur fimm heldur fjögur vegna sameiningar Garðs og Sandgerðis.

Samfélagsleg áhrif fólksfjölgunar verði könnuð og sérstakt mat lagt á hvort fjárframlög til ríkisstofnana á svæðinu hafi fylgt þróun mála á Suðurnesjum, hvort sem er félagslegri eða efnahagslegri.

Undir þessa tillögu skrifa, ásamt þeirri sem hér stendur, hv. þingmenn Silja Dögg Gunnarsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Smári McCarthy, Karl Gauti Hjaltason, Vilhjálmur Árnason, Ásmundur Friðriksson, Páll Magnússon og Birgir Þórarinsson.

Þegar landshlutasamtökin og -samböndin heimsóttu fjárlaganefnd fyrir afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins komu fulltrúar frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum til að fara einmitt yfir þessa stöðu. Margoft hefur auðvitað verið kallað eftir athygli ríkisins á stöðu svæðisins á Suðurnesjum, fyrst þegar herinn fór og síðan við efnahagshrunið þegar atvinnuleysi var þar allt of lengi rúmlega 15%. Suðurnesjamönnum tókst að koma sér upp úr þeirri erfiðu stöðu án mikils atbeina frá ríkinu og á þeim tíma þurfti að skera niður í menntakerfi, í heilbrigðiskerfi, til löggæslunnar o.s.frv. eins og við þekkjum.

Þegar vart verður við fólksfjölgunina eru þessir innviðir veikir fyrir. Ríkið hefur ekki staðið sig eða brugðist við eða verið eins sveigjanlegt og sveitarfélögin við að takast á við þessa breytingu. Ör fólksfjölgun á Suðurnesjum hefur aukið álag á stofnanir á svæðinu og framlög hafa ekki aukist í samræmi við hana eins og sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa bent á og ræddu um við fjárlaganefnd í haust. Viðvarandi fólksfjölgun ár eftir ár þýðir að skekkjan verður meiri.

Það er ekki tekið tillit til mikilvægra breytinga eins og uppruna íbúa, samsetningar íbúa á svæðinu sem skiptir þó miklu máli þegar hugað er að uppbyggingu félagslegra innviða. Það er ekki heldur tekið tillit til breytinga á mannfjölda umfram landsmeðaltal sem þó er gríðarlega mikilvæg breyta og það hlýtur að vera mikilvægt að viðurkenna að áætlunargerð ríkisins tekur ekki mið af hraðri íbúaþróun á Suðurnesjum. Það sem við erum að kalla eftir hér er að framkvæmdarvaldið, ráðuneytin, sem skiptir máli að vinni saman varðandi þessa stöðu sem upp er komin, komi með heildstæða áætlun.

Við vitum að hlutfallsleg íbúafjölgun hefur orðið mest á Suðurnesjum ef við lítum yfir landið allt frá árinu 2010 og langt umfram þá 1% fjölgun á ári sem ríkið miðar við í áætlunum sínum. Það er ansi mikill ósveigjanleiki sem ríkið sýnir, að þegar áætlanir eru settar upp um fjárveitingar til landshluta sé miðað við meðaltal yfir allt landið. Á vaxtarsvæðum eins og Suðurnesin hafa verið undanfarið þar sem fjölgunin fer langt fram úr þessari tölu er samt sem áður miðað við meðaltalið.

Þetta gengur ekki. Suðurnesjabúar sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda eins og aðrir landsmenn, sem þurfa á þjónustu lögreglunnar að halda og fleiri menntunartækifærum svo dæmi séu tekin, geta ekki unað við þetta.

Á milli áranna 2010 og 2018 fjölgaði erlendum ríkisborgurum um 3.780 á Suðurnesjum sem er svipaður íbúafjöldi og á Ísafirði. Fjölgunin á erlendum ríkisborgurum sem þurfa á annars lags þjónustu að halda — t.d. er túlkaþjónusta á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja miklu meiri en á heilbrigðisstofnunum úti um land svo dæmi sé tekið um hvernig taka þarf tillit til íbúasamsetningar ekki síður en fjölda íbúa á svæðinu.

Síðan hefur umferð um Reykjanesbraut náttúrlega aukist afskaplega mikið, um 80% á síðustu fimm árum. Það kallar á viðhald og að tvöföldun sé kláruð alveg alla leið og upp í flugstöð. Auk þess eru almenningssamgöngur á svæðinu í ólestri. Af hverju skyldi það nú vera? Það er vegna þess að ríkið stendur í deilum við sveitarfélagið um hvernig þeim skuli háttað og upphafið að því var að leggurinn flugstöð til Reykjavíkur var tekinn út úr kerfinu. Það var eini leggurinn sem bar sig. Sveitarfélögin á Suðurnesjum máttu bera tapið. Að vísu stóðu yfir málaferli hvað þetta varðar þar sem sveitarfélögin voru með mjög sterka stöðu eftir þau málaferli, en þá standa deilur um hvernig skuli greiða fyrir skaðann. Allt er upp í loft og enginn samningur um almenningssamgöngur á milli ríkis og sveitarfélaga á Suðurnesjum. Það er annað mál sem við þurfum að taka.

Forseti. Þessi tillaga fékk heilmikla umfjöllun á síðasta þingi þegar Samfylkingin stóð ein að baki henni. Umsagnir voru jákvæðar, talsmaðurinn sem var hv. þm. Vilhjálmur Árnason var í raun tilbúinn að afgreiða málið út úr nefndinni þegar ekki náðist vilji til að klára málið af einhverjum ástæðum sem mér eru algjörlega huldar. Ég átta mig ekki á því hvernig stóð á því að tillagan strandaði í umhverfis- og samgöngunefnd.

Ég óska eftir því að málið fari þangað aftur inn og núna er það með stuðningi flestra flokka og allra óbreyttra þingmanna kjördæmisins þannig að bæði hv. stjórnarandstöðuþingmenn og stjórnarþingmenn styðja málið. Það er dagljóst hvernig staðan er á Suðurnesjum og það verður að bregðast við henni. Ef við horfum ekki þangað þar sem vöxturinn er svona mikill, þar sem álagið á stofnanirnar sem ríkið rekur á svæðinu er svo mikið að starfsfólk stendur varla undir því álagi og íbúarnir fá ekki þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda, ef við lítum ekki þangað, hv. þingmenn, erum við ekki að standa okkur. Fyrir hvað stöndum við þá?

Hér er mál sem allir geta sameinast um og nú er von á fjármálaáætlun inn í þingið. Auðvitað vona ég að ráðherra hafi nú þegar áttað sig á stöðunni og muni líta til Suðurnesja þó að það hafi ekki verið í haust þegar fjárlög voru afgreidd. Það eru nokkrar vikur síðan þannig að vonandi hafa stjórnvöld áttað sig á þeim tíma. Ef ekki verður að gera ráðstafanir við gerð fjárlagafrumvarpsins sem lagt verður fram í haust.

Frú forseti. Ég óska eftir því að þessi þingsályktunartillaga gangi til umhverfis- og samgöngunefndar að lokinni þessari umræðu.