149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

staða sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

187. mál
[14:02]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar örstutt að velta upp með hv. flokkssystur minni efni þessarar ágætu tillögu. Sveitarfélögin á suðvesturhorninu hafa verið undir miklu álagi á undanförnum misserum og árum þó umfangið sé auðvitað langmest á Suðurnesjum og eigi sér ekki hliðstæðu. Ég velti því fyrir mér hvort það sé eitthvað í lagaumhverfinu sem við þurfum að huga að til að styrkja eða tryggja stöðu sveitarfélaga sem glíma við aðstæður sem þessar. Þó að innviðirnir séu traustir eftir atvikum í þessum samfélögum þá lætur auðvitað eitthvað undan þegar svona mikið gengur á. Það er gömul saga og ný að ríkisvaldið virðist vera seint að taka við sér og bregðast við.

Nefnt var að eitt er mikil íbúafjölgun en svo er samsetning þeirra annað, hvernig íbúar eru þetta. Í þessu tilviki erum við að glíma við dálítið sérstakar aðstæður því hluti er fólk af erlendu bergi brotið og þarf sérstakan stuðning. Varðandi heilbrigðisstofnunina liggur í hlutarins eðli að fleiri íbúar þarfnast meiri stuðnings og meiri og betri heilbrigðisþjónustu. Það þarf að bregðast við þessu. Ríkisvaldið virðist kveikja mjög seint á þessu. Ég spyr því hv. flokkssystur mína, Oddnýju G. Harðardóttur, hvort að við þurfum að einhverju leyti að treysta betur lagaumhverfið þannig að sveitarfélögin standi betur að vígi.