149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

staða sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

187. mál
[14:04]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Þó vil ég segja áður en ég svara hv. þingmanni að andsvör við samflokksmenn er nú ekki eitthvað sem ég held að við ættum að taka sem sjálfsagt mál. Einkum er það nú slæmt þegar stendur yfir málþóf en svo er ekki núna. Auðvitað fagna ég því að fá að svara þessari spurningu því að þetta er lykilatriði.

Það hefur verið aðalsmerki íslensks samfélags hvað það bregst hratt við breytingum og við erum sveigjanleg. Það hafa sveitarfélögin verið á Suðurnesjum og á öðrum vaxtarsvæðum. Við erum með vaxtarsvæði kringum Akranes og kringum Selfoss og auðvitað á höfuðborgarsvæðinu þó að vöxtur á þessum svæðum hafi ekki verið eins mikill og á Suðurnesjum. Ríkið bregst ekki við. Ríkið er svifaseint, það er með sín excel-skjöl með 1% fjölgun á meðan fjölgunin er miklu meiri á ýmsum svæðum. Þessu þurfum við að breyta.

Mér er kunnugt um það að í byggðastefnu sem ekki er búið að samþykkja hér í þinginu er sérstök klausa þar sem á að finna út úr því hvernig ríkið á að bregðast við sérstökum aðstæðum eins og svona miklum vexti á ákveðnum landsvæðum. Það er eitthvað sem við þurfum að gera en í sjálfu sér ætti þetta bara að vera almenn skynsemi. Við erum að deila út fjármunum og þjónustu við fólk og þá eigum við að líta á það hvernig íbúasamsetningin hefur breyst, (Forseti hringir.) hvort fólki hafi fækkað eða fjölgað, þegar við endurskoðum okkar áætlanir. Það ætti ekki að vera mikið vandamál fyrir ríkið að gera það.