149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

staða sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

187. mál
[14:07]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, það kann að vera eitthvað ankannalegt að ég standi hér og eigi orðastað við flokkssystur mína, en málið varðar auðvitað fleiri svæði en bara Suðurnes og málið er mikilvægt fyrir sveitarfélög á Suðurlandi, Selfoss og það svæði, Vesturland, Akranes. Þessi samfélög hafa orðið fyrir miklu álagi vegna tilflutnings og þau hafa þurft að glíma við viðfangsefnið og gert það býsna vel. En öllu má ofgera. Auðvitað má segja að með fleiri íbúum þá aukist tekjur sveitarfélagsins með auknum útsvarstekjum, ekki satt? En hvað með Jöfnunarsjóð sveitarfélaga? Hvernig bregst hann við? Tekur hann tillit til þessa?

Mig langar líka að velta aðeins upp þeim hugmyndum sem komu fram hjá hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur í Fréttablaðinu í dag þar sem hún segir að það sé upplagt og sveitarfélögin eigi að stefna að því að lækka sína skatta til borgaranna. Hvernig rímar það við þessi stöðugt auknu umsvif og auknu kröfur sem gerðar eru til sveitarfélaga um að veita góða þjónustu og helst meiri þjónustu? Ríkið hefur fremur í sinni viðleitni verið að varpa auknum kröfum yfir til sveitarfélaganna, á sveitarstjórnarstigið, án þess að tekjustofnar séu tryggðir að mati sveitarstjórnarmanna almennt.