149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

staða sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

187. mál
[14:37]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Mig langaði í upphafi að þakka fyrsta flutningsmanni þessarar þingsályktunartillögu, hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir að leggja hana fram. Tillagan er geysivel unnin og ég tek heils hugar undir það sem kemur fram þar og er auðvitað meðflutningsmaður á tillögunni, eins og allir þingmenn Suðurkjördæmis. Ég tel þetta mjög mikilvægt mál og er löngu kominn tími til að stjórnvöld leiðrétti hlut Suðurnesja en það hefur í raun verið hörmungarsaga hvernig ríkið hefur sinnt þeim landshluta að því leytinu til að öll opinber þjónusta á Suðurnesjum sem heyrir undir ríkið hefur dregist saman eða a.m.k. alls ekki fylgt þeirri íbúaþróun sem þarna hefur orðið á undanförnum árum.

Tillagan gengur út á að gerð verði aðgerðaáætlun, sem verður þá tímasett, um hvernig efla megi þjónustu ríkisins við íbúa á Suðurnesjum og mæta mikilli fólksfjölgun þar. Auðvitað er löngu kominn tími til þess að það verði gert. Þarna hefur verið fordæmalaus íbúaþróun og fjölgun mikil. Segja má að síðustu árin hafi verið um 10% fjölgun á hverjum tveimur til þremur árum. Við höfum ekki séð svona fjölgun, held ég, á einstöku landsvæði hér á landi síðustu áratugi.

Sú íbúafjölgun er að mörgu leyti sérstök, vegna ýmissa ástæðna. Nýju íbúarnir eru aðallega þeir sem starfa við flugvöllinn, alþjóðaflugvöllinn í Keflavík. Þeir starfa í ferðamannaiðnaðinum sem hefur á undanförnum árum gefið mest í sameiginlega sjóði landsmanna og í raun verið sá atvinnuvegur sem hefur orðið til þess að Ísland hefur risið eftir hrun. Samsetning þessa fólks er líka sérstök að því leytinu til að mikið af fólkinu sem vinnur við flugvöllinn hefur flust til landsins erlendis frá. Það er því mikið um nýbúa og þess vegna reynir meira á innviði eins og skólakerfið og heilbrigðiskerfið.

Suðurnesin hafa orðið fyrir ýmsum áföllum á síðustu árum og áratugum og er rækilega frá því sagt í greinargerð með tillögunni, eins og t.d. brottför varnarliðsins 2006 sem varð til þess að mikið högg kom á atvinnulífið á Suðurnesjum og þar varð mikið og langvarandi atvinnuleysi. Eftir hrun tók ekki betra við vegna þess að stærsta sveitarfélagið á svæðinu stóð um tíma ansi höllum fæti og hefur ekki enn þá náð sér almennilega upp úr því. Svæðið fór því líka illa út úr hruninu. Síðan hefur í uppbyggingunni orðið fordæmalaus fjölgun á svæðinu og ekki nóg með það heldur er saga United Silicon á svæðinu vörðuð mistökum og áföllum. Atvinnulífið á svæðinu hefur orðið fyrir miklum áföllum.

Hvar er það sem þarf að gefa í? Hvað þarf ríkið að gefa í? Ríkið þarf að mínu mati að gefa í heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum, eins og hefur aldeilis heyrst undanfarin misseri. Hún er kominn langt niður fyrir það sem ásættanlegt er. Löggæslan hefur einnig þurft að horfa til þess að hún er alls ekki í takt við það sem þarf á svona fjölmennu svæði. Framhaldsskólarnir og síðast en ekki síst vegakerfið hafa þurft að þola samdrátt eftir hrun. Það er ekki langur vegur upp í flugstöð en það er ekki enn búið að tvöfalda Reykjanesbrautina úr höfuðborginni og upp að flugstöð og ekki fyrirsjáanlegt á næstu árum. Ég styð því þessa tillögu heils hugar og þakka fyrir hana og vona að hún hljóti góðan framgang að þessu sinni.