149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

kolefnismerking á kjötvörur.

275. mál
[14:46]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt að fá fram mál af þessu tagi. En það eru nokkur atriði sem mig langaði til að forvitnast um.

Eitt sem snýr að því er að í titlinum er talað um kolefnismerkingar. Ég hefði haldið að þar sem kjöt er að upplagi kolefni — í lífrænni efnafræði gengur þetta allt út á kolefnisgrindur — væri heppilegra að tala um kolefnisfótsporsmerkingu eða koltvísýringsmerkingu á kjötvöru.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort ekki væri eðlilegra að hnika þessu til. Sömuleiðis hvort ekki væri eðlilegra að tala almennt um matvæli. Að taka kjötvöru sérstaklega út fyrir sviga er ákveðin sóun á tækifærum, gæti maður sagt. Inn í þetta þyrfti náttúrlega að taka hluti eins og flutning og annað, svo ekki sé talað um næringarefni og sögu þeirra, allt það sem kemur við sögu og er í virðiskeðjunni þegar þessar vörur eru framleiddar.