149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

kolefnismerking á kjötvörur.

275. mál
[14:53]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lýsi ánægju með hvað þingmaðurinn tekur vel í allar þær breytingar sem kunna að verða á þessu máli vegna þess að ég held að hér þurfi að skoða málið nokkuð vítt. Ef við erum farin að tína til aðra hluti en hreina framleiðsluþætti og flutningsþætti hvað varðar áhrif matvæla á umhverfið þurfum við líka að fara að velta fyrir okkur, t.d. í framleiðslu á kjöti hér á landi, landnotkunarþættinum sem er einn stærsti orsakavaldur losunar gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Þar spilar kjötrækt stóra rullu.

Síðan þurfum við að ræða hvernig við getum breytt neysluvenjum þannig að við drögum aðeins úr kjötneyslu, bara heilt yfir, óháð öllu. Á Íslandi eða í heiminum öllum, það er sama hvort mengið maður skoðar, stendur landbúnaðurinn fyrir 10–15% af losun gróðurhúsalofttegunda. Helmingur þess er vegna iðragerjunar (Forseti hringir.) jórturdýra sem er erfitt að ná niður að nokkru magni (Forseti hringir.) nema með því að fækka þeim dýrum, með því að draga úr neyslu á kjöti.