149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

kolefnismerking á kjötvörur.

275. mál
[14:55]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er búið að svara flestum af þeim spurningum sem ég hafði hér, en að öðru leyti hrósa ég þessari tillögu til þingsályktunar.

Mig langaði að benda á eitt sem ég komst að í heimsókn í Nýsköpunarmiðstöð um daginn, sem gerir það að verkum að ég hlakka til að sjá þessar merkingar á kjötvörum, á grænmeti, jafnvel á ýmsu öðru. Þegar við vorum að skoða nýja tækni um veiðar, ljósvörpu, sem skilar mjög góðum árangri, var okkur t.d. sagt að það þyrfti um 4 lítra af olíu til þess að ná einu kílói af rækju. Ég held að tölurnar sem sjást munu á þessum merkingum verði dálítið stjarnfræðilegar, komi fólki á óvart. Þess vegna tek ég heils hugar undir þessa þingsályktunartillögu og óska henni velfarnaðar í gegnum nefndina og með öllum þeim tillögum sem komu hjá fyrri andsvarendum.