149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

samkeppnisúttekt á löggjöf og regluverki.

289. mál
[15:31]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um samkeppnisúttekt á löggjöf og regluverki. Tillagan hljóðar svo: Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að láta vinna heildstæða úttekt á löggjöf og regluverki hér á landi með hliðsjón af áhrifum á virka samkeppni á markaði. Við vinnuna verði leitað eftir samstarfi við Efnahags- og framfarastofnunina, OECD. Heimilt verði að skipta úttektinni í áfanga en henni skuli þó að fullu lokið fyrir árslok 2021.

Það er ekkert launungarmál, herra forseti, að það er því miður svo að áhugi okkar á frjálsri og óheftri samkeppni hefur mestallan fullveldistímann, í það minnsta, verið heldur takmarkaður. Má segja í raun og veru að alls kyns höft, viðskiptahöft, gjaldeyrishöft, takmarkanir af hálfu hins opinbera á frjálsri atvinnustarfsemi, hafi einkennt þetta tímabil öðru fremur, sem er miður þegar horft er til sögu okkar. Ef við horfum t.d. til þeirra Íslendinga sem börðust hvað harðast fyrir sjálfstæði landsins á sínum tíma, eins og Jóns Sigurðssonar, sem oftast var nefndur forseti, þá einkenndi það einmitt þessa menn öðru fremur hversu einlægir baráttumenn þeir voru fyrir frelsi í viðskiptum, bæði innan lands og landa á milli og höfðu einlæga trú á því að það væri farsælasta leiðin til að byggja upp öflugt og gott samfélag.

Hins vegar virðist vera að fljótlega upp úr fullveldisstofnun hafi áhugi íslenskra stjórnmálamanna á frjálsri samkeppni dofnað verulega og mætti jafnvel segja að áhugi þeirra hafi vaxið í jöfnu hlutfalli á móti á að stýra atvinnulífinu með einhverjum hætti og sérstaklega þá stýra því hvaðan atvinnulífinu væri stýrt. Enn eimir því miður eftir af því í samfélaginu í dag og það var í raun og veru ekki fyrr en með inngöngu okkar, fyrst í Fríverslunarsamtök EFTA og síðan með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu sem við tókum til við að uppfæra samkeppnislöggjöf okkar og reyna að innleiða hér sæmilega frjálsa samkeppni og eftirlit með atvinnulífinu hvað þetta varðar.

Þrátt fyrir að margt hafi áunnist á þeim 25 árum sem liðin eru frá því að við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu, eimir enn mjög eftir af ýmsum samkeppnishindrunum í lögum okkar og regluverki. Það er óumdeilt að öflugt og gott samkeppnisumhverfi stuðlar að auknum hagvexti og aukinni framleiðni, lægra verði og betri lífskjörum almennt. Það er kannski furðulegt hversu lítið stjórnmálin hafa sinnt þessu mikilvæga máli í gegnum tíðina. Rekstrarumhverfi sem auðveldar nýjum fyrirtækjum að takast á við þau sem fyrir eru á markaði og skapar tækifæri til vaxtar fyrirtækja á grundvelli samkeppnishæfni þeirra er einmitt nauðsynlegt fyrir neytendur og fyrirtæki.

Fjöldi rannsókna hefur sýnt að atvinnugreinar sem búa við meiri samkeppni uppskera meiri vöxt í framleiðni. Eins og við þekkjum mætavel, t.d. úr umræðu í kjaraviðræðum, þá er á endanum grundvöllur kjarabóta hér á landi framleiðnivöxturinn, hann er beinn ávinningur launþega, ekki bara í lægra vöruverði heldur einnig á endanum í svigrúmið til hærri launa en ella. Fyrirtækin sem búa við hátt samkeppnisstig leggja nefnilega meiri áherslu á framleiðnina og að halda aftur af kostnaðarhækkunum en fyrirtæki á fákeppnismörkuðum. Ástæðan er nokkuð augljós. Fyrirtæki á samkeppnismarkaði tekur verðmyndun af markaði og getur því ekki sjálfkrafa velt kostnaðarhækkunum út í verðlag, ólíkt fyrirtæki í fákeppnisumhverfi sem gjarnan á nokkuð auðvelt með að ryðja kostnaðarhækkunum út í verðlagið vegna skorts á valfrelsi neytenda.

Það er heldur enginn vafi á því að óþarflega íþyngjandi regluverk eða rekstrarumhverfi sem ýtir undir fákeppni eða einokun getur reynst skaðlegt fyrir hagvöxtinn. Það er vel þekkt í þessum efnum að það er mun erfiðara fyrir t.d. ný fyrirtæki að leita inn á markaði þar sem regluverk er flókið og íþyngjandi, óþarflega íþyngjandi, og í því felst ákveðin samkeppnisvernd fyrir þau fyrirtæki sem þar starfa, fyrir utan augljósar takmarkanir sem oft eru reistar í lögum og reglugerðum við samkeppninni sjálfri.

Einnig má leiða líkur að því að aukin samkeppni hafi jákvæð áhrif á jöfnuð. Fákeppni eða einokun er nefnilega alltaf á kostnað almennings í formi hærra vöruverðs. En ávinningurinn af fákeppninni rennur til fárra eigenda viðkomandi fyrirtækja. Það eru gjarnan hinir fátækustu sem verða verst úti ef samkeppni eða skortur á samkeppni leiðir til hærra vöruverðs eða lakari gæði hennar. Að sama skapi sýna rannsóknir að þó svo að aukin samkeppni leiði oft af sér hagræðingu og fækkun starfa til skemmri tíma séu áhrifin til lengri tíma á atvinnustig ekki augljós. Samkeppninni fylgir nefnilega líka nýsköpun og á endanum kemur mikil og kröftug starfasköpun eða myndun nýrra starfa í kjölfarið á aukinni framleiðni, háu samkeppnisstigi í atvinnulífinu.

Í greinargerð með þingsályktunartillögu þessari er farið ágætlega yfir vöruverð á nokkrum mörkuðum hér á landi yfir tímabil tveggja áratuga 1997–2018, og verður satt best að segja, herra forseti, að það er mjög sláandi að sjá þann verðsamanburð. Reynt er að leggja mat á samkeppnisstig viðkomandi markaða og er alveg augljóst af þeirri mynd að dæma að samkeppni hefur veruleg áhrif á vöruverð, líka hér á landi. Þannig eru þær vörur sem hækkað hafa hvað mest einmitt þær vörur sem háðar eru hvað mestum samkeppnishindrunum, fákeppni eða jafnvel einokun. Má þar nefna þætti eins og póstþjónustu, sem hefur liðlega fjórfaldast í verði á þessu viðmiðunartímabili.

Hið sama má segja um kostnað við leigubifreiðar eða heilbrigðisþjónustu, áfengi og tóbak, opinbera þjónustu og rafmagn sem hafa hækkað talsvert umfram vísitölu neysluverðs á þessu viðmiðunartímabili. En í hinn endann má nefna vörur eins og símaþjónustu, fatnað og skó og innlent grænmeti, sem einmitt er frjáls samkeppni um. Þær vörur keppa við frjálsan innflutning og hafa gert undangengin 15 ár. Þess sjást glögglega merki í þessum verðsamanburði því að allar hafa þessar vörur hækkað talsvert minna en vísitala neysluverðs á sama tíma.

Það er reyndar áhugavert varðandi skófatnað að því er gjarnan haldið fram, t.d. þegar kemur að háu matvælaverði hér á landi, að vandamálið liggi í versluninni en ekki þeim samkeppnishindrunum sem við höfum reist í landbúnaði. En hér sést svo um munar að það er einmitt virk og góð samkeppni í versluninni sjálfri sem hefur áhrif. Búvörur án grænmetis hafa t.d. hækkað talsvert meira en vísitala neysluverðs á þessu viðmiðunartímabili þrátt fyrir opinbera verðstýringu sem ætlað er að halda aftur af verðhækkunum í þeirri fákeppni sem þar ríkir.

Það eru fleiri markaðir sem enn bera einkenni fákeppni eða verulegra samkeppnishindrana. Þar ber fyrst að nefna orkumarkaðinn þar sem enn er mjög takmörkuð samkeppni, t.d. varðandi flutning og dreifingu raforku, framleiðslu raforku á heildsölustigi en ekki síður þá hitaveitu. Við búum í raun og veru öll við nokkurs konar einokunarumhverfi í þeirri þjónustu. Landbúnaðurinn hefur áður verið nefndur en verulegar samkeppnisskorður eru í innlendri matvælaframleiðslu af ýmsu tagi, og eins í heilbrigðiskerfinu, að sjálfsögðu, þar sem einkarekstri eru reistar allnokkrar og vaxandi skorður, sér í lagi af hálfu núverandi ríkisstjórnar sem virðist vera í sérstakri sókn gegn einkarekstri í heilbrigðiskerfinu.

Hið sama má segja um menntakerfið þar sem enn eru töluverðar skorður á samkeppni, en auðvitað verður ekki hjá liðið að minnast á fjármálamarkaðinn sem glímir við verulega litla samkeppni sem endurspeglast í mjög kostnaðarsömu, óhagkvæmu og ósamkeppnishæfu fjármálakerfi í alþjóðlegu samhengi sem sækir sína mestu samkeppnisvernd, ef svo mætti segja, í gjaldmiðilinn; lítinn, óstöðugan gjaldmiðil sem hefur valdið því, sem ítrekað verið fjallað um af hálfu sérfræðinga, að erlendir bankar hafa engan áhuga á því að starfa hér á landi, hvað þá að kaupa upp eins og einn þeirra banka sem fyrir eru.

Því er löngu tímabært að mati flutningsmanna þessarar tillögu að farið verði í heildstæða úttekt á áhrifum laga og reglna á virka samkeppni. Er því mælt með því að forsætisráðherra verði falin yfirumsjón með slíkri úttekt og að leitað verði, sem fyrr segir, samstarfs við Efnahags- og framfarastofnunina og að samkeppnisúttekt þessari skuli lokið eigi síðar en 2021. Þess má geta að samkeppnisúttekt sem þessi er vel þekkt hjá OECD. Þau ríki farið sem hafa í gegnum slíka samkeppnisúttektir, t.d. Ástralía, hafa tilgreint verulega jákvæð áhrif af slíkum úttektum. Í tilfelli Ástrala hefur hagvöxtur aukist tilfinnanlega í kjölfar þeirra umbóta sem ráðist var í þar eftir fyrstu úttekt OECD í þessum efnum. Ástralir eru, að ég hygg, í þessum töluðu orðum í annarri umferð af slíkri regluverksyfirferð í samvinnu við OECD með hliðsjón af jákvæðri reynslu sinni af þeirri fyrstu.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að úttekt sem þessi væri mjög gagnleg fyrir íslenskt atvinnulíf og myndi flagga þá með óyggjandi hætti hvar við búum við verulegar samkeppnishindranir. Það er oft ekki augljóst fyrr en við nánari yfirferð hvar slíkar hindranir geta legið. Aðgangshindranir geta verið óviljandi, ef svo mætti orða það, af hálfu löggjafans, þar sem löggjöf virkar með þeim hætti að takmarka verulega aðgang að samkeppni í viðkomandi atvinnugrein. Þess vegna held ég að þetta væri mjög áhugaverð úttekt.

Ekki má gleyma því að minnast þess að nú þegar hefur einn ráðherra í núverandi ríkisstjórn, hæstv. nýsköpunar-, ferðamála- og iðnaðarráðherra, ráðist í slíka úttekt á samkeppnisumhverfi eða regluverki ferðaþjónustunnar, sem er mjög jákvætt skref. Ég held að fullt tilefni sé til að ráðast í slíka úttekt í regluverki okkar í heild fyrir allt atvinnulífið. Auk þess sem hér stendur eru flutningsmenn þessa máls Hanna Katrín Friðriksson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Steindór Valdimarsson, Jón Þór Ólafsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.