149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

samkeppnisúttekt á löggjöf og regluverki.

289. mál
[15:44]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þingsályktunartillöguna sem mér finnst mjög áhugaverð og get svo sannarlega tekið undir margt sem fram kemur í greinargerðinni. Ég held þó að ástæða sé til að nefna að þegar við erum að tala um vöruflokkana og virku samkeppnina og þar sem verð hefur lækkað og tekið er dæmi um skó og fatnað og annað þess háttar, er það eflaust líka mikið til afnámi tolla og vörugjalda að þakka að verð á þeim vörum hefur lækkað. En ég tek heils hugar undir mikilvægi þess að hér sé öflugur og góður samkeppnismarkaður.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um ástæður þess að þingsályktunartillögunni sé beint til forsætisráðherra í ljósi þess að hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fer einmitt líka með samkeppnismál. Ég velti því fyrir mér hvort ekki hefði verið rétt að þingsályktunartillagan færi þangað. Hv. þingmaður kom einmitt inn á það að sá hæstv. ráðherra hefði nýverið rutt af stað vinnu er varðar ferðaþjónustuna sérstaklega og ég veit líka að fyrirspurnir eru í þinginu varðandi samkeppnismarkaðinn.

Mig langar að vita af hverju þingsályktunartillögunni er beint til forsætisráðherra og þá hef ég líka velt fyrir mér hvaða hv. þingnefnd mun fjalla um þingsályktunartillöguna að lokinni fyrri umr.