149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

samkeppnisúttekt á löggjöf og regluverki.

289. mál
[15:46]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að fagna ber því sem vel er gert. Í tilfelli fatnaðar og skófatnaðar skiptir niðurfelling vörugjalda talsverðu máli, en hér eru líka dæmi um vörur sem eru sennilega í eins óheftri samkeppni í dag og við frekast eigum kost á á okkar litla markaði í gegnum netverslun. Æðiauðvelt er fyrir neytendur að panta þær sömu vörur með tiltölulega skömmum afgreiðslufresti yfir netið og svo auðvelt, eins og við þekkjum, að þá virðist póstdreifingarfyrirtækið okkar vera á hraðri leið á hausinn, vegna þessara sömu póstsendinga. Það er því alveg augljóst að það hefur virkað til að halda verulega aftur af verðlagshækkunum í þeim vöruflokkum.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um hvers vegna þessu sé beint til forsætisráðherra er því til að svara að samkeppnisúttekt eða regluverksúttekt sem þessi nær til laga og reglugerða á verksviði allra ráðuneyta Stjórnarráðsins. Þess vegna var talið eðlilegt að beina ályktuninni til forsætisráðherra til framkvæmdar frekar en ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar sem fer réttilega með samkeppnismál eins og hv. þingmaður benti á. Úttekt sem þessi er mun víðtækari en bara það sem snýr að samkeppnislögum og reglugerðum þeim tengdum. Þetta er í raun og veru yfirferð yfir allt regluverk í samfélaginu, meira og minna allan okkar lagaramma, til að reyna að flagga þeim hindrunum sem í því regluverki kunna að reynast.

Það er síðan að lokum ágætisspurning hjá hv. þingmanni hvaða nefnd ætti að fást við þingsályktunartillögu sem þessa í ljósi umfangs hennar. Mér hefði sjálfum hugnast ágætlega að tillagan gengi til efnahags- og viðskiptanefndar, en það eru æðimargar nefndir að sama skapi, eins og t.d. í Stjórnarráðinu, sem málið snertir og engin augljós ein nefnd sem stendur upp úr sem ætti að takast á við þetta, en efnahags- og viðskiptanefnd er oft að glíma við samkeppnisumhverfið okkar og ekkert óeðlilegt að tillagan gangi þangað.