149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

samkeppnisúttekt á löggjöf og regluverki.

289. mál
[15:49]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef fengið það staðfest að lagt er til að þingsályktunartillagan fari til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og ég ætla ekki að gagnrýna það. Það eru svo sem ágætisrök fyrir því að tillagan fari til forsætisráðherra ef um er að ræða svo viðamikla úttekt að það taki á lagaramma sem á heima hjá kannski mörgum ráðuneytum.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta alla vega mun betri útskýring en til að mynda þegar þingflokkur Viðreisnar lagði fram þingsályktun um endurmat á hvalveiðum og beindi því líka til forsætisráðherra. Ég átti svolítið erfitt með að skilja það. Kannski eru fleiri dæmi í þinginu einmitt um fyrirspurnir og þingsályktunartillögur hjá þingflokki Viðreisnar sem beint er til forsætisráðherra og verður svolítið hjákátlegt þegar umræðan fer svo líka að snúast um að forsætisráðherra þurfi að fá allt á sitt borð ef þingflokkurinn beinir því einmitt þangað sem hann vill leggja til.

Að því slepptu hugnast mér vel sú hugmyndafræði sem stendur á bak við þessa þingsályktunartillögu. Það er auðvitað mikið búið að gera í þessum málum á síðustu árum og er eitthvað sem ég held að stjórnvöld þurfi alltaf að vera að huga að, þ.e. regluverkið og hvernig samkeppni þrífst sem best í hverju landi. Eins og hv. þingmaður fór ágætlega yfir í ræðu sinni er þetta kannski mesta kjarabótin til almennings, að hér sé virk og góð samkeppni.

Ágætisdæmi eru nefnd í greinargerðinni og hv. þingmaður fór yfir þau, t.d. þjónusta sem ríkið hefur verið að sinna, með réttu eða röngu, þar sem þjónustugjaldið hefur sannarlega hækkað og á sama tíma eru fyrirtæki jafnvel að fara í þrot, eins og nefnt var dæmið um Íslandspóst.

Ég hlakka til að fá tækifæri til að fjalla um þingsályktunartillöguna í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Ég hygg reyndar líka að þessi vinna sé þess eðlis að hún kunni að kosta umtalsverða fjármuni og þá getum við svo sem farið í umræðu um þingsályktunartillögur (Forseti hringir.) og hvernig megi finna því stað í fjárlögunum þegar þar að kemur. (Forseti hringir.) Ég held að huga þurfi sérstaklega að því að gert er ráð fyrir að þetta sé umfangsmikil vinna, (Forseti hringir.) enda á henni ekki að ljúka fyrr en í árslok 2021. Hér er því um mikla vinnu að ræða.