149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

dánaraðstoð.

138. mál
[15:54]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um dánaraðstoð. Þingsályktunartillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að taka saman upplýsingar um dánaraðstoð og þróun lagaramma um hana þar sem hún er leyfð, sem og tíðni, ástæður og skilyrði dánaraðstoðar og hver reynslan hefur verið.

Einnig verði athugað hvort í löndum sem ekki leyfa dánaraðstoð, einkum Norðurlöndum, Þýskalandi og Kanada, er opinber umræða um málið eða unnið að lagabreytingum.

Loks verði gerð skoðanakönnun meðal heilbrigðisstarfsmanna um afstöðu þeirra til dánaraðstoðar, annars vegar hvort starfsmenn telji dánaraðstoð vera réttlætanlega í ákveðnum tilfellum og hins vegar hvort þeir væru tilbúnir að verða við slíkri ósk að uppfylltum skilyrðum og að því gefnu að það samræmdist íslenskum lögum.“

Í þingsályktunartillögunni segir líka að upplýsingum verði skilað í formi skýrslu fyrir lok febrúar 2019 en það væri væntanlega í dag. Það mun þurfa að gera einhverja breytingu á því og gefa ráðuneytinu aðeins meiri tíma til að vinna úr þessum upplýsingum.

Virðulegur forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég legg fram þessa þingsályktunartillögu. Ég lagði hana fyrst fram á 146. þingi og svo aftur á 148. löggjafarþingi. Á síðustu árum hefur reglulega komið upp umræða í íslensku samfélagi um dánaraðstoð, líknardráp eða sjálfsvíg með aðstoð. Ljóst er að umgjörð um þetta viðkvæma mál er mismunandi eftir löndum. Það að ég ákveð í þessari þingsályktunartillögu að nota orðið dánaraðstoð lýsir líka breyttri umræðu um þennan hlut. Áður hafði einmitt verið notað orðið líknardráp. Mig langar að líkja þessu við umræðuna um fóstureyðingu eða þungunarrof. Mér finnst þetta orð betra. Mér finnst það meira lýsandi yfir það að fá að deyja með reisn, að bundinn sé endir á líf af ásetningi til þess að leysa viðkomandi undan óbærilegum sársauka eða þjáningu. Ég ítreka: Það er það sem átt er við með dánaraðstoð.

Í nóvember 2015 lét Siðmennt gera könnun á lífsskoðunum og trú Íslendinga. Ein spurninga í könnuninni var: „Ertu hlynntur eða andvígur því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda enda á líf sitt ef hann er haldinn ólæknandi sjúkdómi (líknandi dauði)?“ 74,9% aðspurðra voru mjög eða frekar hlynnt því, 18% voru hvorki né en 7,1% mjög eða frekar andvíg.

Árið 1997 birtist grein í Læknablaðinu þar sem fjallað var um rannsókn á afstöðu heilbrigðisstarfsfólks til siðfræðilegra álitamála um takmörkun meðferðar við lífslok. Í umræddri rannsókn var ein af spurningunum um dánaraðstoð eða líknardráp eins og það var kallað í rannsókninni. Aðeins 5% lækna og 9% hjúkrunarfræðinga töldu líknardráp réttlætanlegt undir einhverjum kringumstæðum en einungis 2% svarenda gátu hugsað sér að verða við slíkri ósk. Árið 2010 þegar sambærileg könnun var gerð varð niðurstaðan sú að líknardráp þótti réttlætanlegt hjá 18% lækna og 20% hjúkrunarfræðinga en aðeins 3% vildu verða við slíkri ósk.

Í janúar 2017 voru stofnuð samtökin Lífsvirðing, félag um dánaraðstoð. Í kjölfar stofnunar samtakanna, svo og skoðanakönnunar Siðmenntar sem hér er vísað til, spruttu upp umræður í samfélaginu um málefnið.

Flutningsmenn þessarar tillögu telja að forsenda þess að umræðan geti þroskast og verið málefnaleg sé að fyrir liggi upplýsingar um stöðu þessara mála í öðrum löndum, svo og um afstöðu heilbrigðisstarfsfólks. Mikilvægt er að stjórnvöld safni þeim upplýsingum saman og setji fram á skýran og hlutlausan hátt. Ástæðan fyrir því að ég legg áherslu á það er að oft og tíðum er í samfélagslegri umræðu verið að þræta um hvað sé rétt og rangt í þessum efnum. Þess vegna finnst okkur flutningsmönnum mikilvægt að slíkar upplýsingar liggi fyrir í þingskjölum og þá sé hægt að byggja umræðuna á þeim og frekari aðgerð, verði það niðurstaðan.

Mig langar jafnframt að ítreka að tillaga þessi felur ekki í sér afstöðu til þess hvort ástæða sé til að breyta lögum hérlendis. Tilgangurinn er að treysta grundvöll nauðsynlegrar umræðu um viðkvæmt mál.

Meðflutningsmenn mínir eru Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Guðjón S. Brjánsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Eins og ég sagði áðan snýst þingsályktunartillagan fyrst og fremst og í raun eingöngu um að afla upplýsinga og byggja grunn undir málefnalega umræðu um þetta siðfræðilega viðkvæma mál. Auðvitað eru á þessu máli ýmsar skoðanir. Það er bara eðlilegt. Málið er þess eðlis.

Virðulegur forseti. Ég tel þó að þingheimur ætti að geta sameinast um að samþykkja þessa þingsályktunartillögu, fá þessi gögn fram og taka málefnalega umræðu í kjölfarið, ef niðurstaðan verður með þeim hætti að annaðhvort ég eða aðrir þingmenn ákveða að leggja fram lagafrumvarp sem myndi hreinlega opna á dánaraðstoð.

Til að fara aðeins inn á það er ljóst að ef við færum þá leið að opna á dánaraðstoð myndi það kalla á breytingar á ýmsum lögum, alla vega á læknalögum og svo er það refsiramminn í hegningarlögum og annað, það gætu verið fleiri þættir þar að lútandi. Háskólasamfélagið hefur svolítið sýnt þessu máli áhuga. Ég veit til þess að meistaranemi í lögfræði hefur fjallað ágætlega um þetta mál og sálfræðingar og heilbrigðisstarfsfólk hafa veitt þessu mikla athygli. Þegar málið var lagt fram á fyrri þingum komst það í nefnd og fékk nokkrar — ég man ekki alveg hversu margar þær voru — umsagnir sem hafa þegar borist um málið, sumar jákvæðar og aðrar neikvæðar, og sumir segja auðvitað að þingið eigi alls ekki að vera að ræða þessi mál heldur snúa sér að einhverju öðru, eins og oft vill verða.

Virðulegur forseti. Mér finnst mjög mikilvægt að við tökum þessa umræðu hér og að við þorum að taka hana. Umræðan hefur þróast mjög mikið í löndunum í kringum okkur. Það eru ekki mörg lönd sem heimila dánaraðstoð, að mér vitandi, í dag. Hollendingar hafa þó margra ára reynslu af dánaraðstoð hjá sér. Þar kemur heimilislæknir að málum, en það þarf tvo lækna til að skrifa upp á slíka beiðni. Viðkomandi þarf að vera fullkomlega fær um að tjá vilja sinn á þeim tímapunkti sem slík aðstoð fer fram. Ég mundi segja, miðað við það sem ég hef kynnt mér, að þar væri mjög traustur rammi. Það kom auðvitað ekki til einn, tveir og tíu, ef ég má orða það svo, að Hollendingar ákváðu að breyta sínum lögum. Það var töluvert langur og mikill aðdragandi að því þar, en mér skilst að svona almennt í hollensku samfélagi sé sátt um þetta.

Umræðan hefur verið víða og eru mjög skiptar skoðanir hjá fólki. Svisslendingar hafa líka leyft slíkt og þá er það með öðrum hætti. Í Hollandi getur enginn fengið þessa aðstoð nema vera hollenskur ríkisborgari og vera þá inni í þeirra læknakerfi og vera með heimilislækni sem þekkir til og það allt saman. En í Sviss er hægt að kaupa slíka aðstoð hjá einkafyrirtæki. Auðvitað greiða menn fyrir það töluverða fjármuni. Íslendingur hefur nýtt sér þá aðstoð. Sum fylki Bandaríkjanna leyfa að læknar skrifi út pillur sem geta dregið fólk til dauða. Það er þá einstaklingsins sjálfs að neyta þeirra og þar af leiðandi geyma þær, með þeirri áhættu sem því getur fylgt.

Virðulegur forseti. Af því sem ég hef kynnt mér í þessum efnum hugnast mér hollenska leiðin best. En ég ítreka enn og aftur að hér erum við bara að tala um að kalla eftir slíkum upplýsingum, fá nánari útskýringar á því hvað felist í hollensku leiðinni og hver reynslan hefur verið. Ég veit miðað við þær tölur sem ég hef séð að það eru ekki mjög margir sem nýta sér þessa þjónustu. Það eru fyrst og fremst mjög langt leiddir krabbameinssjúklingar þegar ljóst er að ekki er hægt að bjarga lífi viðkomandi og læknum tekst ekki að lina þjáningar þeirra. Kanadamenn, held ég örugglega, eru búnir að leyfa þetta en á þeim tíma þegar ég var fyrst að skrifa þingsályktunartillöguna var það í bígerð. Ég veit að það var tekið út af dagskrá hjá þinginu í ákveðinn tíma en mér skilst að það sé leyft núna. Það er eitt af því sem væri áhugavert að fá fram.

Ég hygg að ef við viljum feta okkur áfram í þessari umræðu sé margt hægt að læra af þeim löndum sem hafa farið þá leið að breyta löggjöfinni og líka af öðrum löndum í kringum okkur þar sem þessi umræða er jafn gild og jafn mikil og hún er hér.

Þau samtök sem ég vísaði til, virðulegur forseti, Lífsvirðing, hafa staðið fyrir viðburðum og málþingum um þetta mál. Ekki er langt síðan haldið var málþing um annars vegar dánaraðstoð og hins vegar um líknandi aðstoð hér uppi í háskóla. Það verða svolítið skiptar skoðanir og margir hafa bent á að okkur skorti jafnvel skýrari lagaramma í kringum líknandi meðferð. Ég hef heyrt marga sérfræðinga á því sviði tjá sig um það. Margir benda líka á að ekki sé þörf á dánaraðstoð vegna þess hversu mikil framþróun hefur verið í líknandi meðferð og hversu miklu betri hún er í dag en hún var fyrir einhverjum árum. Það er allt saman gott og gilt.

En ég held að ég lengi ekki umræðuna mikið meira. Ég vona innilega að hv. velferðarnefnd, sem fær þetta mál til sín að lokinni fyrri umr., geti afgreitt málið. Þetta er í þriðja skipti sem málið er lagt fram og kemur til umræðu þannig að töluvert af umsögnum liggur fyrir. Ég vonast til að ég sjái marga græna takka þegar við afgreiðum þessa þingsályktunartillögu, vonandi á þessu þingi. Ég tel mikilvægt að þessi gögn liggi fyrir svo við getum ákveðið hvort og hvernig við viljum taka umræðuna áfram.