149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

dánaraðstoð.

138. mál
[16:46]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að höggva í sama knérunn og hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson gerði í upphafi sinnar ágætu ræðu áðan, sem sé að minna á um hvað nákvæmlega þetta mál snýst. Það snýst ekki um að heimila dánaraðstoð, heldur snýst það um að farið verði í þá vinnu að taka saman upplýsingar um dánaraðstoð og þróun lagaramma um hana þar sem hún er leyfð. Okkur getur svo grunað eða fundist að þetta sé einhvers konar dulbúin undirbúningur fyrir lagafrumvarp, eins og hv. þm. Birgir Þórarinsson kom inn á. En meira að segja þeim sem það finnst ætti þá að hugnast betur að við öfluðum okkur upplýsinga og gerðum það vel áður en slíkt lagafrumvarp kæmi fram, ef sú væri raunin. En þetta er viðkvæmt mál, forseti.

Ég ætla bara að vera ærlegur hér og segja að þegar ég hlustaði á hv. þm. Birgir Þórarinsson halda ræðu sína bað ég um að fá að koma upp í andsvar við hann því að mér fannst ég geta andmælt einhverju eða gert eitthvað. Svo hugsaði ég með mér að þetta væri ekki þannig mál. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim skoðunum sem fram komu í máli hv. þingmanns. Hann náði til mín um margt og við erum ósammála um ýmislegt, en ég ber mikla virðingu fyrir þeim skoðunum sem þar komu fram.

En ég vil ítreka tilgang þessarar tillögugerðar. Hann er sá, eins og fram kemur mjög skýrt í þessari stuttu tillögu til þingsályktunar, að fela heilbrigðisráðherra að taka saman upplýsingar um dánaraðstoð og þróun lagaramma um hana þar sem hún er leyfð, sem og ýmsar aðrar upplýsingar.

Komið hefur verið inn á marga hluti í þessu máli og við höfum hér svolítið leiðst út í að ræða afstöðu okkar almennt til dánaraðstoðar, og gott ef við höfum ekki gert það áður þegar við höfum rætt þessi mál. Það er gott og blessað. Það er fínt að við ræðum það. Við höfum örugglega mörg hver ólíka afstöðu til þessa. Ég hugsa að ég hafi aðra afstöðu en ýmsir meðflutningsmenn mínir á þessu máli. Ég er mjög opinn þegar að þessu kemur. Ég hlustaði þegar vitnað var í lög um réttindi sjúklinga þar sem segir: „Dauðvona sjúklingur á rétt á að deyja með reisn.“ Ég er nánast til í að setja bara orðið „einstaklingur“ þarna inn í stað sjúklings. Það er mín persónulega skoðun og ég ætla ekkert að fara mjög djúpt í hana, enda finnst mér það algjört aukaatriði hver afstaða mín til dánaraðstoðar er í raun.

Ég veit hins vegar að þetta er umræða sem er að gerjast sífellt meira í samfélaginu. Þess vegna finnst mér mjög virðingarvert og í raun og veru einstaklega faglegt að standa svona að verki. Þar með er ég ósammála t.d. landlækni, en vísað var í umsögn hans um að þessi umræða ætti ekki heima hér inni. Ég er ósammála því. Hún ætti kannski ekki heima hér inni ef hér lægi fyrir illa útbúið lagafrumvarp um að leyfa dánaraðstoð í haust, og hér stæðum við og hrópuðum um réttindi lífs og réttindi einstaklinga, um réttindi frjáls vals o.s.frv. Við erum sem betur fer ekki þar. Við erum að tala um að kalla saman allar upplýsingar, læra af reynslu annarra, setjast yfir málin, skoða hvernig farið hefur verið með þetta í öðrum löndum og taka saman í skýrslu. Hvað við gerum svo við þá skýrslu veit ég ekki, ég veit ekki hvernig sú skýrsla mun líta út eða hverju hún mun skila. Ég hef ekki sökkt mér niður í það hver reynslan er í þeim löndum þar sem þetta hefur verið leyft. Ég vona innilega að þetta verði samþykkt svo við getum ástundað þau faglegu vinnubrögð og náð í þær upplýsingar.

Svo er ýmislegt annað sem komið hefur fram. Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir kom með mjög þarfar og góðar ábendingar um að kannski þyrfti að útvíkka hvernig horft er á þetta, að taka ástæður sem heyra undir velferðarkerfið inn í, ekki bara heilbrigðiskerfið. Mér finnst það gott. Skoðum þetta út frá eins mörgum hliðum og mögulegt er. Hv. þm. Birgir Þórarinsson kom inn á þann regnboga skoðana og afstöðu sem við höfum, hvaðan við komum að þeim. Þarna eru mikilvægir þættir, allt frá siðferði yfir í trúmál, yfir í réttindi starfsfólks, sem var mjög ánægjulegt að heyra að væru dregin hér fram. Það þurfum við allt að taka til athugunar og bera virðingu fyrir þegar við ræðum þessi mál.

Og talandi um réttindi starfsfólks, forseti, það finnst mér nefnilega vera lykilatriði í þessu máli. Ég er ánægður með að gera eigi skoðanakönnun meðal heilbrigðisstarfsfólks um afstöðu þess til dánaraðstoðar, hvort það væri tilbúið til að verða við slíkri ósk að uppfylltum skilyrðum. En það er lykilatriði að hvar sem þetta verður leyft, úti í heimi eða hér, ef það verður einhvern tímann, verði aldrei gengið á réttindi starfsfólks til að þátt ekki þátt í þessu ef svo ber undir.

Vilji minn til að deyja með reisn má ekki ganga á réttindi annars sem hefur það ekki í sér að aðstoða einstakling við að kveðja þennan heim. Það þarf í mínum huga að tryggja það þegar og ef einhvers konar umræða hefst um að þetta verði að veruleika.

En þetta er viðkvæmt mál og gott að við séum að ræða það hér. Það er gott að við séum að ræða það æsingalaust og það er gott að við séum að stinga upp á því að við tökum saman allar upplýsingar um málið. Við metum reynslu annarra, tölum við heilbrigðisstarfsfólkið okkar. Ég myndi halda að þessi vinna yrði grunnur að mun víðtækara samtali í samfélaginu um þessi mál.

Vissulega eru bein tengsl milli þessa máls yfir í heilbrigðisstarfsfólk, en þetta er engu að síður mál sem snertir okkur öll. Þetta er ekki einkamál einhverra ákveðinna starfsstétta.

Forseti. Þess vegna styð ég þessa tillögu, sem ætti ekki að koma neinum á óvart þar sem ég er einn af flutningsmönnum hennar. Í raun finnst mér til fyrirmyndar hvernig að þessu er staðið og við ættum í raun og veru að gera þetta oftar, einfaldlega að leyfa okkur að ræða mál sem eru mikil álitamál í samfélaginu eða taka saman upplýsingar um þau í rólegheitum og vega og meta, byggt á þeim upplýsingum og í raun ekki bara taka þátt í umræðu í samfélaginu um dánaraðstoð, sem aukist hefur undanfarið, heldur ýta undir hana. Við erum málstofa þjóðarinnar, segjum við á tyllidögum um okkur sjálf í þessum sal. Ég er spenntur fyrir því að við færum þá málstofu út á meðal þjóðarinnar og færum við þá skýrslu sem hér er verið að kalla eftir í púkk um þetta mikilvæga mál.