149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

dánaraðstoð.

138. mál
[16:55]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka flutningsmanni og meðflutningsmönnum fyrir að setja þetta mál á dagskrá. Eftir að hafa hlustað á umræðuna hér í dag þá veltir maður því fyrir sér hvort með því að setja það á dagskrá sé ekki verið að opna umræðuna. Það eru örugglega margir úti í bæ og í okkar samfélagi sem óttast að með því að setja málið á dagskrá þurfi að taka afstöðu til þess og hugsanlega geti það orðið til þess að einhvern tímann í framtíðinni gæti þetta orðið möguleiki. Ég hugsa að það megi heyra raddir fólks sem er á móti dánaraðstoð sem telur að hér sé verið að taka ákveðna áhættu í þá átt með því að opna umræðuna.

Ég tek heils hugar undir það sem stendur hér, að forsenda þess að umræðan geti þroskast og verið málefnaleg sé að fyrir liggi upplýsingar um stöðu þessara mála og um afstöðu heilbrigðisstarfsfólks.

Mig langar aðeins að koma inn á þær kannanir eða rannsóknir sem hafa verið gerðar á afstöðu heilbrigðisstarfsfólks varðandi þetta mál og er talað um í greinargerðinni. Árið 1997 var gerð fyrri könnunin sem hér er vitnað í og þar taldi lítið hlutfall lækna og hjúkrunarfræðinga líknardráp réttlætanlegt og einungis 2% svarenda gátu hugsað sér að verða við slíkri ósk. 13 árum síðar er gerð sambærileg könnun, þá hefur hlutfallið aukist bæði meðal lækna og hjúkrunarfræðinga sem telja að líknardráp geti verið réttlætanlegt, komið upp í 18% lækna og 20% hjúkrunarfræðinga. Mér finnst það segja svolítið söguna að hlutfall þeirra sem myndu vilja verða við óskinni er einungis 3%. Maður ímyndar sér og hefur líka tekið þessa umræðu sem starfsmaður í heilbrigðisþjónustu og mikið í líknandi meðferð, að fólk er oft jákvætt gagnvart því að þetta væri hugsanlega möguleiki en þegar kemur að því hver eigi að taka af skarið, hver sé tilbúinn til að veita slíka meðferð, þá eru færri þar um.

Ég held líka að sú umræða sem er verið að ýta úr vör aftur, í þriðja sinn, geti haft áhrif á þá meðferð sem við veitum í dag. Hver sem niðurstaðan verður er sjálfsagt mál að taka allt þetta saman, það kemur hér skýrt fram að það er verið að tala um tíðni, ástæður og annað slíkt, þar er í rauninni ekki verið að flokka ástæður heldur að taka saman allar þær ástæður sem hafa verið að baki í þeim löndum þar sem þetta er gert. Það getur vakið okkur til umhugsunar um það hvernig við gerum hlutina í dag. Það kom fram í máli þingmanns fyrr í dag um líknandi meðferð sem við veitum í dag að hún þarf að geta þróast áfram, regluramminn í kringum hana sé kannski ekki nógu skýr. Hvað er líknandi meðferð? Hvað er full meðferð, endurlífgun og annað slíkt? Kannski er það mismunandi á milli stofnana, milli lækna eða annars heilbrigðisstarfsfólks hvernig litið er á það. Það er þekkt að við getum bætt okkur, við sem störfum í þjónustu við langveika, í því hvernig við skráum hlutina og að það séu allir meðvitaðir um hvað fólk vill.

Ég held að þetta geti líka haft áhrif á fræðslu sem er mikil til heilbrigðisstarfsmanna um að leiða aðstandendur, leiða einstaklinga sem eru deyjandi, í gegnum það ferli, aðdragandann og hvernig við vinnum með það. Það hver niðurstaðan akkúrat verður úr þessari skýrslu þarf ekki endilega að segja af eða á með dánaraðstoð á Íslandi eða breytingar á lögum, heldur getur hún haft víðtæk áhrif t.d. á þá meðferð sem við veitum í dag og á okkur sem einstaklinga, að við tökum afstöðu til málsins, að okkur sé aðeins ýtt út í það að hugsa málið. Sumir munu ekki vilja það og vilja setja það til hliðar. Það er allt í góðu og ekkert sem pressar á það.

Mig langar til að þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir hans ræðu, þetta er það sem ég hefði viljað sagt hafa, það var svo margt gott sem kom fram þar. Ég hvet fólk eindregið til þess að lesa hana eða horfa á hana, því það er svo margt í þessu, margt sem þarf að hugsa út í og hann kjarnaði þetta mjög vel.

Ég er jákvæð gagnvart þessari vinnu og ég tel að það verði bara gott að fá þessar upplýsingar. Þetta er í þriðja sinn sem þessi þingsályktunartillaga er lögð fram og vonandi nær hún fram að ganga svo hægt sé að taka saman slíkar upplýsingar sem verði grundvöllur að frekari umræðu og leyfi þessum hugmyndum að þroskast og þróast og verði örugglega til að bæta þá þjónustu sem við veitum á Íslandi í dag.