149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

dánaraðstoð.

138. mál
[17:22]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka öllum hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni. Mér finnst hún hafa verið málefnaleg, góð og yfirveguð. Ég held að það sé mjög mikilvægt þegar við ræðum mál sem þetta.

Mér heyrist flestir sem hér hafa tekið til máls vera tilbúnir að styðja þingsályktunartillöguna sem slíka. Vangaveltur hafa verið um hvort hún ætti að taka yfir enn breiðari þætti eins og samsetningu heilbrigðiskerfisins eða gerð þess, og þá vil ég bæta við gæðum þess.

Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir velti fyrir sér velferðarkerfunum í þeim löndum þar sem dánaraðstoð hefur verið leyfð. Mér finnst full ástæða til að hv. velferðarnefnd setjist yfir það og kanni hvort hún sjái að hægt sé að taka á því líka í þingsályktunartillögunni. Ég vil þó beina þeim tilmælum mínum eða sjónarmiðum til hv. velferðarnefndar að ganga ekki of langt þannig að málið verði of flókið og yfirgripsmikið til að hægt verði að stíga einhver skref og minni ég þá enn og aftur á að við erum bara að tala um skýrslu. Gögnin geta verið ýmiss konar. Ýmis gögn liggja fyrir, svo sem um samsetningu heilbrigðiskerfa og það kann vel að vera að heilbrigðisráðuneytið eigi þar af leiðandi auðvelt með að setja þau með skýrslunni og gefa okkur þannig gleggri mynd.

Hv. þm. Birgir Þórarinsson kom í seinni ræðu sinni sérstaklega inn á þróun og taldi að engin ástæða væri til að taka þetta saman því að hver og einn gæti í rauninni kynnt sér þær upplýsingar. En það er ekki síst einmitt vegna þess að þegar þessi mál hafa verið rædd, til að mynda á síðum blaðanna í greinum fólks á milli, greinir fólk svolítið á um slík gögn og þróun í umræddum löndum. Til að mynda er sú þróun sem hv. þingmaður vísaði í ekki í samræmi við þá upplifun sem ég hef fengið. Þess vegna er tekið á því og ég vil líka sjá í skýrslunni fjallað um þróun mála í þeim löndum sem veita dánaraðstoð. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Það er einnig mjög mikilvægt að setja þetta í samhengi við félagslega stöðu fólks, uppbyggingu félagslegs kerfis og velferðarkerfis í þeim löndum. Ég tek heils hugar undir það.

Ég skil líka mjög vel að þeir sem hafa sterka skoðun á málinu og eru á móti dánaraðstoð vilji ekki opna umræðuna. Þá er auðvitað bara þægilegra að setja pottlokið ofan á og ræða það ekkert frekar. Margar af þeim umsögnum sem bárust um málið síðast voru einmitt svolítið á þá leið.

Ég hef aftur á móti verið á þeirri skoðun að mikilvægt sé að opna umræðuna og ræða málið af yfirvegun. Margir kunna að lesa þannig í orð mín í tengslum við þetta mál og það að ég velji að leggja þingsályktunartillöguna fram, að ég sé þar af leiðandi hlynnt dánaraðstoð. Ég get alveg viðurkennt það. Ég er hlynnt dánaraðstoð í mjög afmörkuðum og skýrum ramma. En til að ég gæti gert fyllilega upp hug minn um hvernig sá rammi ætti að vera og hvernig við ættum að útfæra hann vil ég byggja það á reynslu annarra ríkja af því hvernig þróunin hefur verið þar.

Ég vil líka taka skýrt fram að í mínum huga eru þau gögn sem við erum að kalla eftir til þess fallin að fólk geti myndað sér skoðun eða jafnvel skipt um skoðun á báða vegu. Ég ítreka enn og aftur það sem segir í þingsályktunartillögunni: Þetta er alls ekki ætlað til þess að stilla þingheimi upp við vegg um að hann eigi að hafa skoðun á því hvort rétt sé að heimila dánaraðstoð með lögum eða ekki. Aftur á móti kann vel að vera, af því að þessi gögn liggja fyrir, að við getum sest yfir þau og farið að mynda okkur skoðun. Ég held að það sé svo mikilvægt.

Réttindi starfsfólk voru nefnd sérstaklega og þá langar mig að nefna að eins og ég hef kynnt mér þetta hollenska kerfi þá er það þannig að læknar eru ekki skyldugir til að veita þessa aðstoð. Þess vegna bætti ég við þingsályktunartillöguna þeim þætti að skoða viðhorf heilbrigðisstarfsmanna. Við flutningsmennirnir vorum sammála um hversu mikilvægt væri að fá það fram.

Ef við værum að velta fyrir okkur svokallaðri hollenskri leið gengi það ekki upp ef hér væru kannski bara 2–3% heilbrigðisstarfsmanna tilbúin til að taka þátt í svona aðstoð. Þá segir það sig sjálft að málið væri dautt.

Þess vegna held ég að mjög mikilvægt sé að sú afstaða liggi fyrir; ekki bara út af því að miklu auðveldara er að segja: Jú, jú, ég er hlynnt dánaraðstoð í mjög afmörkuðum ramma og undir afmörkuðum reglum, en svo er bara allt önnur spurning að spyrja hvort viðkomandi sé tilbúinn að taka þátt í að veita slíka aðstoð.

Hv. þm. Guðjón S. Brjánsson kom einmitt inn á það sem hefur aðeins þróast í tengslum við umræðu um hvernig líknandi aðstoð er veitt í dag, hvort það kunni hreinlega að vera svo að í dag sé veitt dánaraðstoð þó að það sé ekki undir þeim formerkjum. Þess vegna hallast ég líka að því að svo mikilvægt sé að hafa skýran lagaramma og mér finnst mjög áhugavert að í tengslum við þessa umræðu hefur sprottið umræða um hvort við þurfum að yfirfara heilbrigðislög og þá þjónustu sem veitt er, sem sagt líknandi þjónustu, þegar verið er að veita hana. Er hún mismunandi eftir því um hvaða lækni eða sérfræðing er að ræða eða heilbrigðisstofnun, eins og nefnt var hér í ræðu? Eða vita allir hvað átt er við með þeirri aðstoð og er hún samræmd? Er í einhverjum tilfellum starfsfólki jafnvel stillt upp við vegg í dag og beðið um að gefa skammt sem viðkomandi veit að getur leitt til dauða án þess þó að lagaramminn leyfi það í dag? Ég veit ekki hvort svo sé, en ég er alla vega handviss um að mikilvægt sé að fá fram þessi gögn. Og í kjölfarið taki fólk afstöðu til þess hvort rétt sé að halda áfram með málið með einhverjum hætti eða ekki.

Ég þakka aftur mjög yfirvegaða, málefnalega og góða umræðu í dag.