149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

uppgræðsla lands og ræktun túna.

397. mál
[18:24]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp í eina stóra samsvörun enda gerum við Framsóknarmenn allt í samvinnu. Ég kem hingað upp til að taka undir þessa þingsályktunartillögu sem ég er náttúrlega einn af flutningsmönnunum að. Mér er málið mjög ljúft og skylt. Það eru þingmenn Framsóknarflokksins sem hafa lagt þetta fram ásamt hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni og Bryndísi Haraldsdóttur.

Þingsályktunartillagan hvetur landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðherra, að gera tillögur að breytingu á lögum og/eða reglugerðum sem miði að því að koma á fót hvatakerfi þannig að landeigendur hafi ávinning af því að græða upp land og stöðva jarðvegsrof með uppskeru af túnum sem nýtist ekki sem fóður.

Ég vitna nú í bónda sem var líka ljóðskáld. Hann orti um vornóttina og milda moldina sem hann var að sá í. Í lok eins erindisins segir:

Ég treysti þér mórauða mold.

Ég er maður, sem gekk út að sá.

Tíu krónur og trúin á landið

er allt, sem ég á.

Það er nefnilega málið að bændur, landeigendur, þeir sem ganga á þessari jörð í hvert skipti, hafa bara eina jörð að yrkja. Það er okkar ábyrgð að flytja hana til komandi kynslóðar í því ástandi sem við tókum við henni.

Þessi þingsályktunartillaga rímar við loftslagsstefnu Íslands en það er eitt af forgangsmálum hennar að huga að landgræðslu, eins og segir í aðgerðaáætlun fyrir árin 2018–2030, með leyfi forseta:

„Fáar þjóðir hafa eins góð tækifæri og Íslendingar til að draga úr losun vegna landnotkunar og efla kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi. Með aldalangri gróðurhnignun og jarðvegseyðingu hefur landið misst gífurlegan kolefnisforða í jarðvegi og gróðri. Mikil framræsla votlendis á 20. öld veldur því að veruleg losun koldíoxíðs er úr þurrkuðum mómýrum. Hægt er að draga úr þeirri losun með endurheimt votlendis og hægt er að binda kolefni úr andrúmslofti með landgræðslu og skógrækt.“

Þetta er hluti af því sem við getum gert.

Landgræðsla ríkisins hefur unnið markvisst að því að efla grasrótarstarf í landgræðslu og gróðurvernd og flytja verkefni frá Landgræðslunni heim í héruð. Hv. þm. Þórunn Egilsdóttir nefndi samvinnuverkefnið Bændur græða landið. Það er dæmi um slíkt framtak. Íslenskir bændur hafa sýnt landgræðslu og kolefnisbindingu mikinn áhuga. Bændur eru fleiri en þeir sem sitja á jörðum því að við getum öll talið okkur hafa þau markmið sem íslenskir bændur hafa haft í gegnum tíðina, að yrkja landið og nýta okkur það sem auðlind en á sama tíma að vernda jörðina og skila henni áfram.

Á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda 2017 var samþykkt stefnumótun í þessum efnum til að sinna landgræðslu og kolefnisbindingu í sauðfjárrækt. Þar kemur m.a. fram að íslensk sauðfjárrækt skuli kolefnisjöfnuð eins fljótt og auðið er og segir þar, með leyfi forseta aftur:

„Fyrir árið 2027 skal íslensk sauðfjárrækt verða kolefnisjöfnuð. Þetta verður gert með landgræðslu, skógrækt, endurheimt votlendis, eldsneytisskiptum og fleiri leiðum samkvæmt aðgerðaáætlun Umhverfisráðgjafar Íslands ehf. frá mars 2017 sem unnin var fyrir Landssamtök sauðfjárbænda. Leitað verður samstarfs og stuðnings stjórnvalda og annarra aðila. Stefnt er að því að allar afurðir frá íslenskum sauðfjárbændum verði vottaðar sem kolefnishlutlausar eins fljótt og kostur er.“

Áhugi bænda á að vinna að uppgræðslu er mjög mikill og hafa bændur lýst áhuga á að vinna áfram og meira að slíkum verkefnum. Það skiptir máli að við sýnum því áhuga og stuðning. Þarna sjá bændur tækifæri til að sýna í verki samfélagslega ábyrgð með kolefnisjöfnun. Þetta hjálpar líka við markaðssetningu afurða þeirra auk þess sem þetta skapar fjölbreyttari atvinnutækifæri á landsbyggðinni.

Landgræðslustörf snúa líka að því að stöðva rof og þekja land með gróðri og gera það nothæft á ný. Við vinnum saman að stóru verkefni á hnattvísu sem eru þær loftslagsbreytingar sem við erum að verða vitni að. Það er sameiginleg ábyrgð okkar allra sem byggjum þessa jörð að vinna að lausn sem snýr þessari þróun við. Þar er einn liður að draga úr losun og binda kolefni úr andrúmslofti með landgræðslu og skógrækt.

Þessi þingsályktunartillaga snertir heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 13 um sjálfbæra þróun þar sem fjallað er um aðgerðir í loftslagsmálum. Við erum ekki mörg sem búum í þessu stóra landi og þess vegna er ábyrgð hvers og eins mikil. Hvatakerfi fyrir landeigendur til að græða land er í samræmi við stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„… stefna að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040. Kolefnishlutleysi verði náð með varanlegum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda en einnig með breyttri landnotkun í samræmi við alþjóðlega viðurkennda staðla og með hliðsjón af vistkerfisnálgun og skipulagssjónarmiðum.“

Ég vitna aftur í ljóð Guðmundar Inga Kristjánssonar, skálds og bónda:

Komandi kynslóðir njóta

þess kraftar, sem ég á einn.

Það eru nefnilega kraftar hvers og eins okkar sem byggjum þetta land sem eiga að skila því áfram. Við getum betur og við getum meira. Ég held að við Íslendingar höfum í gegnum tíðina passað upp á þetta. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli.

Virðulegi forseti. Velferð hverrar þjóðar byggist á því að auðlindir séu nýttar með skynsamlegum hætti. Liður í því er að skila auðlindum til komandi kynslóða í sama ástandi eða betra. Verndun jarðvegs og stöðvun jarðvegsrofs er forsenda sjálfbærrar landnýtingar. Þetta er verkefni sem hægt er að vinna að á mörgum sviðum, bæði áhugamanna og fagaðila. Það er líka nauðsynlegt að halda fólki upplýstu um gagnsemi landgræðslustarfa.

Ég tek undir orð hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur þegar hún talaði um að efla rannsóknir og nýsköpun á sviði landbúnaðar og þeirra háskóla sem við eigum. Við eigum tvo háskóla á sviði landbúnaðar, þ.e. á Hólum og Hvanneyri. Það var sláandi frétt sem barst í gær um að þessar rannsóknir hefðu dregist saman og ekki hafi eins mikill kraftur verið settur í þær á síðustu árum. Ég held að það sé kominn tími til að við sinnum þessu með betri hætti til þess að skila okkur áfram á sviði nýsköpunar í landbúnaði og matvælaframleiðslu hér á landi, að við nýtum landið í matvælaframleiðslu o.fl. Þannig skiptir þetta gríðarlega miklu máli.

Að lokum vona ég að þessi þingsályktunartillaga nái fram að ganga. Hún á væntanlega eftir að skila sér inn í atvinnuveganefnd, ég kem kannski til með að fylgja henni frekar eftir því að það skiptir máli að við vinnum saman að þessu. Annars lendum við bara úti í skurði með þetta eða úti á túni.