149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

launahækkanir bankastjóra ríkisbankanna.

[10:55]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin hefur í nafni hæstv. fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar, sent Bankasýslunni fyrirspurn út af launum bankastjóra. Laun bankastjóra Landsbankans hækkuðu um 1,8 milljónir, úr 2,1 milljón í 3,8. Þetta er 80% hækkun og talað er um að hún sé ósanngjörn. Þá er spurning mín: Hvað er sanngjarnt? Helmingurinn af því? 40% hækkun? Er það sanngjarnt? Það eru 850.000 kr. Það er samt þrefalt meira en lágmarkslaun. Ef við tökum sem dæmi að mánaðarlaun viðkomandi bankastjóra eru 12–15-föld framfærsla, lífeyrislaun, öryrkja er bara spurningin: Hvað er sanngjarnt? Er sanngjarnt að þeir fái 40.000 kr. hækkun á ári næstu þrjú árin, sem eru 120.000 kr. eins og verkalýðshreyfingin fer fram á? Er það sanngjarnt fyrir bankastjóra, að fara úr 2,1 í 2,2 milljónir, eitthvað svoleiðis?

Við verðum að fara að finna það út vegna þess að kjör atvinnulausra, öryrkja og einstæðra foreldra eru það slæm að fátækt meðal barna hefur aukist. Fátæk börn á Íslandi eru orðin 10.000–12.000.

Ég spyr: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í háum launum bankastjóra og í því hvernig á að taka á þeirri staðreynd að fátækt er að aukast meðal barna? Þá spyr maður sig líka: Hversu mörg börn eru þarna úti, ekki bara í fátækt heldur sárafátækt?