149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[14:35]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina yfir þessa þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú er það svo að sú sem hér stendur er afskaplega fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum, svona heilt yfir. Ég er mjög fylgjandi því að við eflum lýðræðið í landinu en ég verð að segja og taka undir með hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé, að ég átta mig ekki alveg á þeirri spurningu sem hv. þingmaður vill bera fram, sem er:

„Vilt þú að flugvöllur og miðstöð innanlands-, kennslu- og sjúkraflugs verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík uns annar jafngóður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar?“

Ég vil í fyrri spurningu minni spyrja hv. þingmann: Vill hann færa miðstöð sjúkraflugs frá Akureyri, þar sem miðstöðin er núna, til Reykjavíkur ef niðurstaðan verður jákvæð, ef þjóðin segir já við þessari spurningu? (Forseti hringir.) Vill hv. þingmaður það eða verður það bara ráðgefandi að hluta til?