149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[15:07]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir ræðu sína. Það eru tvö atriði sem mig langar til að fá að koma inn á hjá honum. Ég skildi orð hans þannig í ræðunni að hann vildi flugvöllinn fortakslaust úr Vatnsmýrinni þó að sá fyrirvari lægi fyrir að leitað yrði að jafn góðum eða betri stað. Hv. þingmaður leiðréttir mig ef ég misskildi þetta hjá honum. En mér fannst þetta liggja nokkuð skýrt fyrir, (Gripið fram í: Ha?) að hv. þingmaður vildi völlinn úr Vatnsmýrinni ef nokkur annar kostur fyndist. Erum við ekki sammála um það nokkurn veginn? (Gripið fram í.) Ókei. Þá eru spurningarnar tvær. Önnur spurningin er: Finnist ekki jafn góður eða betri kostur, er hv. þingmaður þá þeirrar skoðunar að völlurinn skuli áfram vera í Vatnsmýrinni? Hin spurningin er: Skiptir máli hvað uppbygging nýs flugvallar á nýjum stað, jafn góðum eða betri, kostar? Eða er það atriði sem hv. þingmaður telur víkjandi í greiningunni á þessum hagsmunum?