149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[15:10]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að benda á hin augljósu rök sem við Miðflokksmenn reyndum að halda fram í sjúkrahúsmálinu en því miður var lítið hlustað á það. Hv. þingmaður telur þetta, að því er virðist, vera hluta af þroskasögu borgarinnar, að flugvöllurinn víki af þeim stað sem hann er á núna. Ég verð að hafa þann fyrirvara að innsæi okkar og tilfinning leiðir okkur reglulega hvorn á sinn staðinn og eflaust ekki bara í flugvallarmálinu. Hv. þingmaður vísar í skýrslu um að fleiri valkostir liggi fyrir. Ég spyr hvort þar sé um að ræða Rögnuskýrsluna eða hvort hann sé að vísa í eitthvað annað. Mig langar síðan að hnykkja á öðru atriði. Ef sú staða kemur upp að ekki finnst flugtæknilega jafn góður eða betri kostur, sættir þingmaðurinn sig við flugvöll í Vatnsmýrinni til langrar framtíðar?