149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[16:22]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að fá að taka til máls í tengslum við þetta mál, sem ég er einn af meðflutningsmönnum að, tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Vil ég þakka flutningsmanni, Njáli Trausta Friðbertssyni, sérstaklega fyrir hans vinnu í þessum efnum. Við erum 16 þingmenn á þessari þingsályktunartillögu og ég vona að leið hennar verði bein og greið í gegnum þingið.

Það er auðvitað sérstakt, svo maður byrji nú aðeins á þeim umræðum sem hafa átt sér stað í þingsalnum, í ræðum á undan þeirri sem ég held núna, að hlusta til að mynda á fulltrúa Viðreisnar, hv. þm. Þorstein Víglundsson, segja og meina það, og eflaust getur hann fært lagaleg rök fyrir þeirri skoðun sinni, en segja það blákalt að höfuðborgin beri engar skyldur gagnvart íbúum landsins, að Reykjavíkurborg beri skyldur gagnvart íbúum Reykjavíkurborgar og þar með sé það búið.

Það er mjög sérstök afstaða, þykir mér, að heyra svona ákveðið að allir þeir kostir, bæði tekjur, þjónusta og annað slíkt, sem felast í þeirri miðlægu þjónustu sem byggð hefur verið upp á höfuðborgarsvæðinu séu í engu metnir, hjá þingmanni Viðreisnar í þessu tilfelli. Ég vil segja það hér að auðvitað ber Reykjavíkurborg ákveðnar skyldur þó að fæstar þeirra séu rammaðar inn með lögformlegum hætti. Reykjavíkurborg hefur skyldur gagnvart landsbyggðinni vegna þeirrar miðlægu þjónustu, stjórnsýslu og alls þess sem er byggt upp á höfuðborgarsvæðinu og allir landsmenn þurfa að nýta sér.

Hér hefur töluvert verið fjallað um traust á milli aðila, þ.e. Reykjavíkurborgar og ríkisstjórnar, að menn hafi ekki gengið í takt um langa hríð í þessu máli. Þar verður sá sem hér stendur svo sem bara að staðfesta, ég starfaði í samgönguráðuneytinu árin 2003–2006 og þá var Reykjavíkurborg alveg jafn þver í þessum málum hvað það varðar að koma flugvellinum fyrir kattarnef og hún er í dag. Þá var núverandi borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, formaður skipulagsráðs þannig að hann hefur fylgt þessu máli alla tíð.

Það var sérstakt að heyra þingmann Samfylkingarinnar, held ég að það hafi verið, halda því fram áðan að það væri bara ekkert sem benti til þess að Reykjavíkurborg væri að sækja á um að áætlun um brotthvarf vallarins, sem kemur fram í aðalskipulagi, gangi eftir. Hún felst í því að norður/suður-brautinni verði lokað árið 2022.

Ég hafði lítinn tíma til að leita að athugasemdum en ég fann eina með mjög snöggri leit í viðtali við núverandi borgarstjóra, Dag B. Eggertsson, frá 6. september 2013 þar sem fréttamaður spyr, með leyfi forseta: „En flugvöllurinn er að fara? Er það ekki öruggt?“ — Það er ljóst að afstaða fréttamannsins kemur fram í spurningunni. Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, svarar: „Aðalskipulagið hefur gert ráð fyrir því í tíu ár að hann fari í áföngum.“ Og fréttamaður spyr: „Og eftir því er unnið?“ Dagur B. Eggertsson svarar aftur: „Tillagan felur það í sér og við erum út af fyrir sig orðin langeyg eftir því að fá viðbrögð við þeirri stefnumörkun. Því hún er í raun ekkert að breytast í aðalskipulaginu sem nú er gerð tillaga um miðað við það sem samþykkt var 2001.“

Afstaða borgaryfirvalda liggur þannig alveg fyrir og það þarf enginn að fara í grafgötur með hana. Ef menn telja sig vera í einhverjum vafa um afstöðu borgarinnar má segja að hún kristallist í því að hafa farið með það samkomulag, sem menn síðan sáu mjög sínum augunum hver, eftir að það var undirritað, fyrir Hæstarétt, fengið þar dóm um að neyðarbrautinni svokölluðu skyldi lokað og henni var lokað. Það er alveg ljóst. Eins og komið hefur fram í umræðunum hér á undan hefur það að borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, sitji í einhverri nefnd um framtíðarstaðsetningu flugvallarins eða fulltrúar á hans vegum bara ekkert með það að gera að Reykjavíkurborg sé tilbúin að víkja frá þessum tímasetningum sínum. Við verðum að fá það fram með öðrum og tryggari hætti. Síðasta merkið, síðasta flöggunin sem við þingmenn sáum í þeim efnum, var einfaldlega hæstaréttardómur. Það var nú leiðin sem borgin fór til að knýja á um eftirgjöf vallarins og það að menn hörfi þar eina braut í einu. Neyðarbrautinni var lokað 2016 og nú er gert ráð fyrir því, samkvæmt sama samkomulagi og hæstaréttardómurinn fjallar um, að norður/suður-brautin fari 2022. Það verður því að virða okkur landsbyggðarþingmönnunum það til vorkunnar að við treystum samskiptum ríkis og Reykjavíkurborgar ekkert sérstaklega vel í þessum málum. Og þegar ég segi það er það því miður afstaða Reykjavíkurborgar sem okkur mörgum hverjum líður heldur illa með.

Skipulagsvald sveitarfélaga kemur auðvitað til umræðu í þessu samhengi. Það er oft talað um að það sé heilagur réttur sveitarfélaga að fara með skipulagsvaldið. Nú hefur í mínu kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, staðið yfir áralöng barátta um veglagningu um Gufudalssveit eða veglagningu um Teigsskóg eins og flestir þekkja það. Skipulagsvaldið má vera heilagur réttur, menn geta notað hvaða hugtak sem er, sveitarfélaganna að fara með, en það er ekki heilagur réttur sveitarfélaganna að misnota skipulagsvaldið. Ég leyfi mér bara að segja það. Það er skylda höfuðborgarinnar að taka tillit til þeirra miklu hagsmuna landsbyggðarinnar sem felast í veru flugvallarins í Vatnsmýrinni, þeirrar góðu tengingar sem þar er á milli þeirrar miðlægu þjónustu sem byggð hefur verið upp í höfuðborginni og íbúum landsbyggðarinnar er nauðsynlegt að sækja og hafa ágætan aðgang að.

Kostirnir sem höfuðborgin hefur, hvort sem þeir eru tekjulegir eða bara út frá öllum fasteignasköttum og gjöldum sem greidd eru af húsnæði opinberra stofnana, hvort það er útsvar opinberra starfsmanna sem þar um ræðir, aðgengi að þjónustunni eða kostnaður sem höfuðborgarbúar verða ekki fyrir í samanburði við landsbyggðarfólk þegar þarf að leggjast inn á sjúkrahús og svo mætti lengi telja, hallar allt í sömu áttina í þessum samanburði. Við þingmenn landsbyggðarinnar verðum að gera kröfu um að fulltrúar höfuðborgarinnar horfi til þessara mála með sanngjörnum hætti.

Í dag er ekki verið að gera það. Það er apparat að störfum á Hlíðarenda á flugvallarsvæðinu og stendur þar að byggingu fjölbýlishúsa. Valsmenn held ég að byggingafélagið heiti, það gæti verið einhver útfærsla af svipuðu nafni. Það er búið að vera undarlegt að fylgjast með því að kerfið skuli skjálfa á beinunum daginn út og daginn inn gagnvart því að þurfa mögulega að borga skaðabætur þessum ágætu Valsmönnum — sem ég held að sé nú ekki samheiti yfir þá sem falla undir regnhlíf íþróttafélagsins góða sem séra Friðrik stofnaði forðum. Ég held að menn þurfi aðeins að stíga til baka þar og hugsa með sér: Mögulega geta orðið einhverjar skaðabætur af því að stíga til baka, en þær verða aldrei nema brotabrot af þeim kostnaði sem kostar að byggja upp nýjan völl á nýjum stað.

Svo er eitt sem mér finnst nauðsynlegt að menn hafi í huga í tengslum við skipulagshlutann og uppbyggingu í Vatnsmýrinni, ef völlurinn fer. Nú halda menn því fram að borgin muni bara veslast upp og deyja og allt verði ómögulegt ef menn fá ekki að byggja í Vatnsmýrinni. Væri borgin þá í dauðateygjunum núna ef Vatnsmýrin væri umlukin og á kafi í vatni? (Forseti hringir.) Ef þarna væri ekki land? Væri þá útilokað að byggja … (Forseti hringir.) Þetta heldur ekki nokkru vatni.