149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[16:34]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er einfaldlega ekkert sem bendir til annars en að þetta sé sú afstaða sem Reykjavíkurborg ætlar að hafa í málinu. Vera fulltrúa borgarinnar í nefndum um aðra mögulega kosti virðist ekki skipta þar neinu og er maður þar fyrst og fremst að horfa í niðurstöðuna sem varð árið 2016 í kjölfar hæstaréttardómsins. Það er samkomulagið frá því haustið 2013 sem Reykjavíkurborg virðist horfa til og á meðan annað kemur ekki með skýrum hætti frá borginni verðum við að horfa á málið með þeim hætti.

Þarna er gert samkomulag í lok árs 2013. Á ákveðnum tímapunkti verða aðilar samkomulagsins ósammála um hvað skuli lesa út úr því. Niðurstaðan er sú að úr verður dómsmál. Það endar með hæstaréttardómi árið 2013, sem síðar rammar inn þá ákvörðun að neyðarbrautinni verði lokað. Það er ekkert sem bendir til þess að Reykjavíkurborg sé annarrar skoðunar í dag en hún var þegar hún lagði málið fyrir dóm sem endaði í hæstaréttardómi 2013. Bara ekki neitt. Ég verð, væntanlega ásamt hv. 1. framsögumanni þessarar þingsályktunartillögu, manna glaðastur ef aðrar meldingar sem hönd á festir koma fram frá Reykjavíkurborg.

En af því hv. þingmaður nefndi hversu langan tíma þetta mál spannar er ég svo heppinn að hafa reynt að vera vel inni í því alla tíð síðan árið 2003. Það er því komið á sautjánda ár síðan ég fór að fylgjast vel með þessu máli. Það er snúið og umfangsmikið. (Forseti hringir.) Þetta er marghöfða þurs en Reykjavíkurborg virðist alltaf þramma í sömu átt.