149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

bráðavandi SÁÁ.

[15:08]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Enn á ný kem ég hingað til að ræða alvarlega stöðu á Sjúkrahúsinu Vogi. Enn á ný kem ég til að kalla eftir því sem við gerðum hér, löggjafarvaldið, fyrir jól þegar við veittum 150 millj. kr. til þess að efla stuðning við SÁÁ og starfsemina þar. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim góða vilja sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sýnt hér áður í svörum til mín og talað um fjármagn til neyslurýma, þar sem verið er að tala um aukna aðstoð og eflingu á göngudeildir sem eiga að taka utan um fíklana okkar þegar þeir koma úr meðferð. Ég er enn og aftur að tala um þann bráðavanda sem steðjar að Sjúkrahúsinu Vogi, hvað lýtur að því máli. Þar er biðlisti eftir innlögnum hátt í 600 manns. Nú er verið að fækka innlögnum á árinu um 400 og er þegar búið að loka göngudeildinni á Akureyri.

Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hún hafi á einhverjum tímapunkti ekki skilið það ákall sem var úti í samfélaginu í fyrra, sem var hér þegar þingheimur tók sig saman um að kalla eftir þessari auknu fjárveitingu sérstaklega til stuðnings við bráðavanda innlagna á Sjúkrahúsið Vog, sérstaklega gagnvart þeim biðlistum og því fárveika fólki sem beið eftir að komast í meðferð.

Skildi hæstv. heilbrigðisráðherra á einhverjum tímapunkti ekki þetta ákall? Hvers vegna er ekki gert meira í því? Ætlar hæstv. heilbrigðisráðherra ekki að koma frekar til móts við nákvæmlega þetta ákall? Ég þarf ekki að heyra í svari hæstv. heilbrigðisráðherra um eitthvað sem lýtur að göngudeildum, neyslurýmum. Ég er núna einungis að spyrja um bráðavanda vegna skorts á innlagnarrýmum á Sjúkrahúsinu Vogi. Væri ekki mögulegt að við gætum nýtt þetta fjármagn, a.m.k. stærsta hlutann af þessum 150 milljónum sem voru sérstaklega eyrnamerktar í okkar huga til þess að reyna að koma til móts við (Forseti hringir.) og útrýma þessum bráðavanda eins og kostur er?