149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

bráðavandi SÁÁ.

[15:11]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Enn ræðum við málefni SÁÁ, ég og hv. þingmaður, og þó að hv. þingmaður vilji ekki svarið um göngudeildarstarfsemi SÁÁ (IngS: Búin að heyra það.) þá dugar ekki að einhverjir fjármunir séu eyrnamerktir í okkar huga í tiltekna starfsemi heldur þarf að horfa til þess sem þingið ákveður að gera. (IngS: Æ, þið viljið …) Í þessu tilviki er um það að ræða að þingið kemst að tiltekinni niðurstöðu um að styðja við ákveðna starfsemi sem er fyrst og fremst göngudeildarstarfsemi.

Göngudeildarstarfsemi getur líka tekið og tekur líka til bráðavanda. Ekki síður er það svo að með því að taka ákvörðun um að fela Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi að sinna börnum og ungmennum í neysluvanda erum við líka að taka á því að sinna þeim viðkvæma hópi.

Að því leytinu til er verið að taka á þeim hluta. En ég verð, virðulegur forseti, að taka mark á ákvörðun Alþingis þegar viðbótarfjármagnið sem þingið bætir inn í reksturinn er beinlínis eyrnamerkt tiltekinni starfsemi. Ég verð að segja að ég hefði haldið að það væri fagnaðarefni að nú í fyrsta skipti liggur fyrir fjármagn fyrir göngudeildarrekstur og ekki síst á Akureyri.