149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

áhrif loftslagsbreytinga á íslenska náttúru.

[15:15]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þegar kemur að umhverfisvernd er staða, mikilvægi og ábyrgð okkar Íslendinga gífurleg, ekki bara gagnvart okkur sjálfum heldur á heimsvísu. Viðreisn hélt um helgina sitt fyrsta milliþing þar sem lögð var áhersla á tvennt, evrópskt samstarf og umhverfismál. Þar var fjallað um það sem við vitum auðvitað öll, og hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra sennilega betur en flestir, að umhverfismálin varða almannahag mestu um þessar mundir. Vistspor okkar er stórt og fyrirséð að áhrif umskiptanna verði svipleg, svo ekki sé meira sagt.

Þótt umhverfismál séu ekki eingöngu loftslagsmál fer mest fyrir þeim um þessar mundir og hér á norðurslóðum eru þau alltumlykjandi. Áhrifin hafa þegar gert vart við sig með hlýnun og súrnun sjávar, breyttri fiskgengd, breytingu sjávarstrauma og bráðnun jökla. Því langar mig að bera undir ráðherra, spyrja hann hvort farin sé af stað vinna við að meta heildstætt áhrif loftslagsbreytinga á íslenska náttúru og auðlindir þjóðarinnar, sér í lagi fiskstofna á íslenskum miðum en einnig aðra náttúru sem við höfum hingað til notið, treyst á og einkennir landið. Mig langar að vita hver staðan er með þessi mál. Það skiptir máli að við séum með puttann á púlsinum, ekki bara með tilliti til aðgerða til að spyrna við fótum heldur ekki síður hvernig við getum brugðist við stöðunni með tilliti til okkar mikilvægustu atvinnugreina.