149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

áhrif loftslagsbreytinga á íslenska náttúru.

[15:21]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Virðulegur forseti. Ég vil líka taka undir að hagrænir hvatar eru gríðarlega mikilvægt stjórntæki þegar kemur að umhverfismálum og ekki síst þegar um er að ræða loftslagsbreytingar. Þegar skoðuð er aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem var kynnt af sjö ráðherrum, eru hagrænir hvatar í mörgum af þeim aðgerðum sem tilgreindar eru, ekki síst þegar kemur að umbyltingu orkukerfisins, sem er mjög mikilvæg.

Þegar kemur að þáttum sem snúa að auðlindanýtingu, landbúnaði, sjávarútvegi og fleiri þáttum tel ég að hægt sé að beita hagrænum hvötum jafnvel í meira mæli til þess að ná árangri, m.a. í þeim orkuskiptum sem ég nefndi áðan. Þá höfum við í samstarfi við landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið hafið vinnu með bændum, þ.e. sauðfjárbændum til að byrja með, að því með hvaða móti (Forseti hringir.) megi búa til hagræna hvata til að þeir geti tekið þátt í þeirri vegferð sem fram undan er, sérstaklega hvað varðar kolefnisbindingu. Það er því alla vega eitthvað af því sem hv. þingmaður nefndi komið í gang.