149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

heilbrigðismál fanga.

[15:24]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að þetta sé óviðunandi ástand. Ég er líka sammála athugasemdum sem hafa komið frá umboðsmanni Alþingis um það sama. Ég er þeirrar skoðunar að það hvernig við komum fram við frelsissvipt fólk endurspegli stöðu samfélagsins þannig að það þarf að láta hendur standa fram úr ermum í því. Ég hef lagt á það mikla áherslu að bæði sé tryggð almenn heilbrigðisþjónusta við fanga en líka, og ekki síður, geðheilbrigðisþjónusta sem er í samræmi við þær áherslur sem við sjáum almennt í geðheilbrigðismálum og í styrkingu geðheilbrigðismála innan heilsugæslunnar.

Í raun er frátekið fjármagn fyrir geðheilbrigðismál í fangelsum sem nemur um 50 millj. kr. fyrir þetta ár. Þá erum við annars vegar að tala um frátekið fjármagn sem hefur verið til um árabil við Heilbrigðisstofnun Suðurlands til að sinna Litla-Hrauni en hefur ekki verið ráðstafað með þeim hætti og viðbótarfé upp á 30 milljónir til að undirbúa bæði afeitrun og almenna og sértæka geðheilbrigðisþjónustu meðan á afplánun stendur.

Markmiðið með þeim samningum sem eru núna á borði Sjúkratrygginga Íslands og utanumhaldi utan um það fyrirkomulag er að (Forseti hringir.) framkvæmdir verði á hendi sérhæfðu sjúkrahúsanna í samráði við heilsugæsluna og það þarf auðvitað að sinna því á fjórum stöðum á landinu. Þetta er allt saman í framkvæmd. Við erum að ljúka samningunum. Ég vonast til þess að geta greint þinginu, a.m.k. þingnefndinni, frá niðurstöðu málsins á allra næstu dögum. Þau samskipti standa yfir.