149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

aðgerðaáætlun gegn mansali.

[15:36]
Horfa

Fjölnir Sæmundsson (Vg):

Virðulegi forseti. Nú eru liðin rúm tvö ár síðan mansalsáætlun rann úr gildi í lok árs 2016, sem er auðvitað allt of langur tími í svo alvarlegum málaflokki.

Eins og ekki hefur farið fram hjá neinum landsmanni og komið hefur fram í fréttum undanfarið hafa málefni tengd mansali verið viðvarandi vandamál í íslensku samfélagi. Frómt frá sagt hefur gengið mjög illa að vinna gegn mansali á Íslandi, svo illa að alþjóðastofnanir hafa gert athugasemdir við hversu fáar kærur hafa verið lagðar fram í þessum málaflokki hér á landi. Og ekki síður hefur verið gagnrýnd sú vernd og aðstæður sem þolendur mansals búa við hér á landi. Það blasir því við að góð aðgerðaáætlun væri til bóta. Og eins og ég sagði áðan eru liðin rúm tvö ár síðan síðasta áætlun rann úr gildi.

Ég vil því spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Hvað líður framlagningu nýrrar aðgerðaáætlunar í mansalsmálum? Og að auki vil ég spyrja hvort búið sé að tryggja nægt fjármagn í fjármálaáætlun, sem ég veit að er í vinnslu, fyrir nýja áætlun í mansalsmálum.