149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

rafræn skjalavarsla héraðsskjalasafna.

503. mál
[15:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Fyrir skömmu skilaði Þjóðskjalasafn skýrslu um héraðsskjalasöfn og skjalavörslu sveitarstjórnarskrifstofa, þ.e. í desember 2018, og var þar í hefðbundnu eftirlitshlutverki sínu sem það hefur ekki gert mjög lengi. Þar kom eitt og annað fram sem mig langar að ræða við hæstv. ráðherra. Auðvitað er meginforsendan sú ef rekstur héraðsskjalasafna á að uppfylla lög og þjóna sveitarstjórnarstiginu og almenningi að við séum með skýran og góðan ramma og endurspeglum kröfur nútímasamfélagsins.

Í því samhengi vil ég minnast á, sérstaklega af því að fyrirspurn mín snýr að rafrænni skjalavörslu héraðsskjalasafna, að árið 2009 var farið í verkefni sem snerist um að færa gögn úr rafrænu mála- og skjalavörslukerfi menntamálaráðuneytisins til Þjóðskjalasafnsins í vörslu. Það verkefni tók mun lengri tíma og var kostnaðarsamara en gert hafði verið ráð fyrir þegar lagt var af stað. Gera þurfti töluverðar breytingar og flóknasti tæknilegi hlutinn var að umbreyta gögnum yfir á það form sem reglur Þjóðskjalasafnsins um vörslu og útgáfu segja til um.

Ég ætla að varpa upp einu og öðru hér. Niðurstaða þessarar könnunar sýnir að úrbóta er þörf víðs vegar á héraðsskjalasöfnum, bæði er það varðveisla rafrænna gagna og svo framkvæmd eftirlits héraðsskjalasafna með afhendingarskyldum aðilum.

Ég hef áhyggjur af því að gögn sveitarfélaga eða stofnana geti tapast. Það er ekki gott fyrir okkur borgarana, einkum þegar fram í sækir, því að það skiptir auðvitað máli að geta sótt eldri gögn þegar verið er að vinna eitt og annað, hvort sem það eru vísindamenn eða fólk að skrifa ritgerðir eða við að leita uppruna okkar eða eitthvað slíkt. Þarna er mjög margt undir.

Það er sýnt að sveitarfélögin og héraðsskjalasöfnin hafa ekki tryggt varðveislu þessara gagna og eftirlitið stendur ekki nægilega föstum fótum til þess að hægt sé að segja að það sé í lagi. Talað er um samkvæmt könnuninni að 30% héraðsskjalasafna sinni afritun á mikilvægum skjölum að einhverju leyti, ekki sé nógu góð áætlun um markvissa öryggisafritun mikilvægustu skjalanna o.s.frv.

Nú er tíminn að verða búinn og þá langar mig að spyrja um reglugerðina sem ég veit að liggur í menntamálaráðuneytinu, hvenær megi eiga von á henni og hvort aðlögunartíminn verði ásættanlegur. Sér ráðherra fyrir sér að úthlutun árlegs rekstrarstyrks til héraðsskjalasafna úr ríkissjóði þurfi endurskoðunar við? Að lokum spyr ég í ljósi þess að rafrænt eftirlit er gríðarlega kostnaðarsamt og flókið hvort ráðherrann telji að það ætti eingöngu að vera hjá Þjóðskjalasafni, að það ætti að sjá um það en ekki öll söfnin úti um allar koppagrundir.