149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

rafræn skjalavarsla héraðsskjalasafna.

503. mál
[15:52]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil fá að skjóta inn einu orði í þarfa umræðu og harma það að klukkan skuli vera komin í lag. Með auknu magni pappírsskjala og rafrænna gagna aukast umsvif Þjóðskjalasafns, þeirrar merku stofnunar. Það er gullið tækifæri að drepa hér á eitt af sóknarfærunum. Eitt af yfirlýstum markmiðum ríkisstjórnarinnar er að fjölga störfum án staðsetningar og eitt lítið dæmi um vel heppnað fyrirkomulag er að finna á Ísafirði. Á héraðsskjalasafninu hefur undanfarin ár verið vinna í gangi fyrir Þjóðskjalasafn. Hún felur í sér skráningu sóknarmannatala í miðlægan gagnagrunn. Við þetta hafa unnið fjórir starfsmenn og öðlast góða þekkingu á því sviði. Samningurinn við Þjóðskjalasafn er til eins árs í senn. Á hverju ári skapast óvissa um hvort verkefninu verði haldið áfram.

Í ljósi hinnar góðu reynslu á Ísafirði skora ég á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að þetta verkefni og fleiri af því tagi verði fest í sessi þannig að starfsmenn þurfi ekki að búa við óvissu heldur geti skipulagt störf sín sem langtímaverkefni. Því spyr ég ráðherra: Verður þetta gert? Verður verkefnum forgangsraðað í þá veru?