149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

rafræn skjalavarsla héraðsskjalasafna.

503. mál
[15:53]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir að vekja máls á þessu efni. Héraðsskjalasöfnin eru nefnilega merkilegar stofnanir og þau eru víða, jafnvel í héraði eins og hjá Kópavogi og hafa einmitt gegnt miklu hlutverki þar í alls konar útgáfu sem er í seinni tíð bæði rafræn og á pappír. Þar má nefna skemmtileg verkefni eins og til að mynda Sauðfjárbúskapur í Kópavogi sem kom út árið 2017, Landnemar í Kópavogi sem kom út árið 2016, Kampar í Kópavogi sem kom út árið 2013 og þannig mætti telja áfram. Ég held að þetta sé þáttur sem á að vökva, ef svo má að orði komast, reyna að rækta þetta vel og tryggja að slík söfn fái verðugt hlutverk. Ég tek undir með hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni, það er um að gera að flytja störf til þessara safna af höfuðborgarsvæðinu þar sem það á við.