149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

rafræn skjalavarsla héraðsskjalasafna.

503. mál
[15:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þingmönnum fyrir þátttökuna. Mér finnst afskaplega mikilvægt að héraðsskjalasöfnin getað tryggt varðveislu rafrænna gagna, en eftirlitið er víða ekki nógu gott þegar maður horfir til þess að flestöll gögn í stjórnsýslu í dag eiga uppruna sinn í rafrænum kerfum.

Á móti kemur að við getum auðvitað ekki varðveitt allt með því að prenta það út og geyma það, t.d. ekki hljóðskrár eða myndskrár eða gagnagrunna, það var kannski það sem ég var að reyna að koma inn á áðan. Ég hef trú á því að ef við ætlum að láta hvert einasta héraðsskjalasafn í landinu kosta slíkan búnað fyrir sig til að geta geymt þau gögn verði það allt of kostnaðarsamt og þá getum við heldur ekki sinnt því sem við vitum að flest héraðsskjalasöfnin þurfa að sinna, því að þau hafa verið undirmönnuð svo áratugum skiptir og hafa ekki einu sinni getað skráð það sem þau þurfa að skrá í dag.

Ég velti fyrir mér hvort Þjóðskjalasafnið sjálft ætti ekki eingöngu að vista það sem tilheyrir t.d. hljóð- og myndskrám og er dýrari búnaður. Þá byggjum við upp gott kerfi þar sem tekur á móti því. Það má vel vera að Borgarskjalasafnið gæti gert það, ég veit það ekki, en ég held að peningum væri betur varið með því að vista slík gögn eingöngu í Þjóðskjalasafninu og styðja þá með öðrum hætti við héraðsskjalasöfnin. Vissulega fara rúmar 30 milljónir í söfnin en þau eru ansi mörg og þetta eru mjög litlir fjármunir.

Við sjáum tölvupóstana, þeir eru líka skjöl. Ef 47% af sveitarfélögunum varðveita ekki það sem á að falla undir málaskrár þeirra, eins og við höfum því miður séð ítrekað, er það að mínu mati nokkuð sem við þurfum að leggja mikla áherslu á að koma í gott horf.