149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

raddbeiting kennara.

511. mál
[15:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það hefur löngum legið fyrir að röddin er atvinnutæki margra stétta, ekki síst kennara. Við eigum mikið undir því sem notum röddina í vinnunni að hún bregðist ekki.

Í ljósi þess að dómur féll á Akureyri varðandi íþróttakennara sem missti röddina vegna óboðlegra starfsaðstæðna, og má segja að það sé fordæmisgefandi dómur í sjálfu sér þar sem röddin er viðurkennd sem atvinnutæki, langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji að efla megi fræðslu sem hluta af kennaranámi um rödd og raddbeitingu og æfingar fyrir talfæri kennara. Telur ráðherra ástæðu til að það verði gert núna þegar verið er að endurskoða kennaranámið? Og telur ráðherra að magnarakerfi ætti að vera staðalbúnaður í kennslustofu?

Valdís Jónsdóttir talmeinafræðingur hefur verið óspör á að láta okkur vita af því sem vinnum við að nota röddina, sérstaklega kennara sem hún hefur aðstoðað, hvað hægt sé að gera. Hún hefur verið óþreytandi við að reyna að koma á framfæri góðum ábendingum um þessi mál. Ég verð að taka undir með henni. Hávaði er skilgreindur sem skaðlegt hljóð og er talinn eitt af stærstu heilbrigðisvandamálum nútímans. Hávaðamælingar í skólum sýna því miður, bæði í leikskólum, íþróttahúsum og sundhöllum, að kröfur um ómtíma eru ekki uppfylltar og hávaðinn er allt of oft yfir mörkum. Sjálf var ég í kennslustofu þar sem slysavarnafélagið lánaði okkur „eyra“ sem varð rautt þegar hávaðinn varð of mikill. Það er skemmst frá því að segja að eyrað var bara alltaf rautt. Hávaðinn fyrir kennara, fyrir nemendur og alla var allt of mikill. Þetta er líka nokkuð sem hægt er að leysa innan húss með aðgerðum, en veldur óneitanlega álagi á rödd þess sem miðlar. Kennarar eru líka líklegastir til að leita til læknis vegna raddvandamála og óþæginda þeim tengdum.

Í því samhengi langar mig að segja að mikil umræða hefur átt sér stað um PISA-könnunina og niðurstöðurnar og mögulegar ástæður fyrir þeim. Þar hafa fléttast inn í alls konar umræður og varðar m.a. ein af niðurstöðum Valdísar notagildi magnarakerfis í kennsluumhverfi. Þar eru niðurstöður sláandi. Þar kemur fram að megnið af börnum og ungmennum sagðist geta heyrt hvað kennari var að segja þegar hann notaði magnarakerfið.

Mig langar til að spyrja (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra um það sem ég nefndi áðan og hvort hún telji ekki að ekki einungis fræðsla þurfi að koma til heldur beinlínis að gera þurfi þetta að skyldu í kennaranáminu.