149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

raddbeiting kennara.

511. mál
[16:07]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu mikilvægt mál sem er raddbeiting kennara og raddvernd. Ég er sérstaklega ánægð að heyra að lögð sé mikil áhersla á báða þessa þætti í grunnnámi kennara. En raddbeiting og raddvernd þarf líka að vera hluti af símenntun.

Af því að við erum líka að ræða starfsumhverfi kennara er hljóðvist í kennslustofunni það sem hefur kannski mest áhrif frá degi til dags og að lögð sé áhersla á góða hönnun og hljóðvist þegar verið er að hanna kennslustofur og í rauninni allt kennsluumhverfi. Ég hef sjálf reynt það að í þeirri kennslustofu þar sem ég hóf minn kennsluferil var alveg afburðaslæm hljóðvist. Stofan var svo tekin í gegn fyrir þremur eða fjórum árum og ég fékk að koma þar inn og ræða við nemendahóp. Ég get ekki lýst breytingunni sem varð á starfsumhverfinu (Forseti hringir.) sem fylgir svona góðri hljóðvistarhönnun.