149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

raddbeiting kennara.

511. mál
[16:10]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegur forseti. Allt snýst þetta um að kunna að nota þindina. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga efni sem snýst um vinnuumhverfi kennara. Það er alveg ævintýralegt áreiti í kennslustofum og í umhverfi nemenda, það vita allir sem í hafa komist, bæði sjónrænt áreiti og áreiti í hljóðumhverfi, alveg ævintýralegt. Hávaðinn getur orðið alveg óskaplega mikill.

Ég held að flestir viti, sem hafa þurft að ná eyrum hóps, að til að ná eyrum hóps þarf stundum að tala lægra. Það þarf stundum að lækka röddina og stundum þarf að koma á kyrrð inni í hóp. Ég hef vantrú á rafvæddum samskiptum og er dálítið smeykur um að magnari sé til þess fallinn að skapa ákveðinn vegg og auka í raun á áreitið. (Forseti hringir.) Ég hef efasemdir um það og hef meiri trú á að þjálfa þindina.