149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

raddbeiting kennara.

511. mál
[16:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim þingmönnum sem hafa komið með ansi skemmtilegar vangaveltur um þetta málefni.

Ég er á því að mikilvægt sé að þetta sé skylda í náminu, ekki að þetta sé bara eitthvað sem er í námskeiðaformi í mjög stuttan tíma. Það er gott að heyra að áætlun er í vinnslu og að auka eigi raddvernd og -þjálfun.

Hæstv. ráðherra og fleiri töluðu um mikil læti í stóru rými og annað slíkt. Það sem ég á við þegar ég tala um magnarakerfi — ég vil bara segja að ég hef prófað hvort tveggja og tala af reynslu í þessum málum — að mjög gott er að hafa það til að grípa í. Stundum erum við með stóra hópa og asi er í gangi og það þarf að leyfa asanum að vera en ná þarf til nemenda. Ég tek líka undir með hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni, stundum þarf maður að segja „usssss“, tala svona og það nær einmitt allri þeirri athygli sem kallað er eftir. Allt þetta á heima í kennsluumhverfinu, en það er þó þannig að það að geta á einhverjum tímapunkti haft aðgang að magnarakerfi skiptir miklu máli. Þess vegna finnst mér að kennarar eigi að geta haft aðgang að því og þess vegna spyr ég hvort þetta ætti að vera skylda.

Það eru auðvitað vangaveltur um eitt og annað um hvað valdi, af því að ég minntist í upphafi á niðurstöður nemenda okkar í PISA. Því hefur verið velt upp: Getur það verið vegna þess að nemendur heyra hreinlega ekki nægjanlega vel eða þá að börn nái ekki að þróa með sér mál vegna of mikils hávaða í leikskólum sem hefur þau áhrif að þau heyra ekki hvað kennararnir segja?

Við þekkjum það að talhljóðin okkar geta hreinlega drukknað í hávaða og gera það. Ég velti þessu fyrir mér af því að mér finnst að við eigum að vera lausnamiðuð og hafa tólin og verkfærakistuna fjölbreytta frekar en hitt og að kennarar læri að nýta sér það í því umhverfi sem þeir búa við hverju sinni.

Ég þakka fyrir þessa fínu umræðu.