149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

raddbeiting kennara.

511. mál
[16:16]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hefur komið fram varðandi símenntun og endurmenntun. Það er auðvitað mjög mikilvægt að kennarar hafi aðgengi að slíku og þegar við einblínum á raddbeitingu. Hvað varðar hljóðvist er það bara þekkt í sumu skólastarfi að börn vilja jafnvel ekki mæta í skóla ef of mikill hávaði er og þetta getur þróað ákveðinn kvíða hjá þeim og vanlíðan. Það er því stórmál, bæði fyrir kennarana og börnin, hvernig þetta er allt hannað.

Mér finnst mjög áhugavert að heyra ef við setjum þetta í samhengi við mögulegan árangur í alþjóðlega samanburðarprófinu, PISA, og hvort það sé hreinlega þannig að börnin heyri ekki nægilega vel í skólakerfinu okkar. Ég hefði áhuga á að skoða það frekar.

Það sem við erum að gera og ég vil taka það fram, virðulegur forseti, er að við erum að skoða allt menntakerfið okkar. Hvernig stendur á því að íslensk skólabörn mælast neðst af öllum börnum á Norðurlöndunum er varðar lesskilning? Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég tel að það sé meiri geta í kerfinu okkar.

Ég held að þetta snúi líka svolítið að hugarfari, þ.e. að börnin hafi jafnvel ekki fengið nægilega kynningu á þeim prófum. Við fórum í sérstaka kynningu núna þegar PISA-prófið var lagt fyrir. Þetta var gert á sínum tíma, svo ég nefni það, hjá Reykjavíkurborg fyrir prófið 2006–2007 og það skilaði strax miklum árangri. Það munaði verulega um.

En hvað varðar það málefni sem við erum að ræða, raddbeitingu, hljóðvist og magnara, tek ég undir með hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni, ég verð að viðurkenna að mér leist kannski ekki alveg nógu vel á svona magnarakerfi. Ég er hér til að hlusta og ætla að kynna mér þetta betur (Forseti hringir.) vegna þess að ég tel að við eigum að nýta öll þau verkfæri sem eru til staðar til að bæta starfsumhverfi kennara.