149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

framtíð microbit-verkefnisins.

536. mál
[16:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Microbit-verkefnið er mjög áhugavert og við getum nú þegar dæmt ákveðinn árangur af því, t.d. út frá hinni samfélagslegu umræðu um forritun. Við þekkjum það sem hér erum inni að börn og ungt fólk eru heilmikið í leikjum og öðru slíku og það er áhugaverður þáttur hvernig leikir eru mótaðir, hvernig þetta er gert. Það er svo ríkur þáttur í öllu því sem við erum að gera þegar við förum í sjálfvirknivæðinguna. Mér finnst því mjög brýnt að í íslensku menntakerfi sé lagður góður grunnur að því hvernig tæknin virkar og er forritun klárlega stór þáttur í því.

Eins og með öll góð verkefni, jafnvel þó að verkefnið sé mjög gott og góð hugsun að baki og verkefnið mjög þarft, við erum öll sammála um það, er það venjulega innleiðingin og eftirfylgnin sem skipta mestu máli. Hvað kennarana varðar erum við að vinna enn frekar í því að þeir hafi tækin og tólin til að geta tileinkað sér verkefnið.

Svo vil ég líka að við höldum áfram að huga að innleiðingunni og eftirfylgninni. Eins og fram kemur í máli hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar skiptir aðgengi líka miklu máli og að börnin geti verið með tækið hjá sér til að prófa sig áfram og vinna með forritun. Ég held að það sé annar þáttur sem við þurfum að huga að er varðar innleiðingu og eftirfylgni, þ.e. tíminn sem börnin hafa tækið hjá sér og hverju það skilar.

Ég tel að þetta sé eitt af þeim skólabókardæmum þar sem er komið fram með góða hugmynd, við framfylgjum henni og svo heldur þingheimur áfram að spyrjast fyrir um það og við tryggjum að innleiðingin og eftirfylgnin með verkefninu verði góð. Ég held að við ættum að taka þetta (Forseti hringir.) mál aftur á dagskrá og sinna því með þeim hætti sem við höfum verið að gera. (BLG: Heyr, heyr.)