149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

málefni einkarekinna listaskóla.

578. mál
[16:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Andri Thorsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Hvað áttu John Lennon, Pete Townshend, Keith Richards, David Bowie og Ray Davies sameiginlegt annað en að hafa verið ungir karlmenn sem stóðu fyrir músík og tíðarandabyltingu sem breytti heiminum og okkur öllum á sjöunda áratug síðustu aldar? Jú, þeir voru allir í listnámi eftir að hafa átt erfitt með að fóta sig í hefðbundnum skólum. Listnámið hjálpaði þessum mönnum að finna sig, þeir urðu ekki auðnuleysingjar heldur sköpuðu ómæld og ómælanleg verðmæti fyrir heiminn.

Þar með er ekki sagt að allt ungt fólk sem leggur fyrir sig listnám eigi í vændum heimsfrægð eða auðsæld heldur er þetta vitnisburður um hitt, að listnám hjálpar ungu fólki stundum að finna sig. Listnám hjálpar okkur að virkja í okkur og með okkur sköpunargáfuna, sem er einn mikilvægasti eiginleiki mannsins og skiptir æ meira máli samfélagslega eftir því sem vélar munu annast í ríkara mæli störf þar sem reynir minna á þetta sérstaka samspil handa og hugar og skynfæra sem skapar list.

Við þurfum að tala saman um það hvernig búið er að þeim skólum sem hafa af metnaði og dugnaði en líka af vanefnum byggt upp listnám hér á landi.

Ég hef lagt fyrir hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fimm spurningar um einkarekna listaskóla sem viðurkenndir hafa verið af menntamálayfirvöldum og lúta sömu lögum og reglugerðum og skólar í eigu ríkisins, en berjast í bökkum og glíma við margvísleg vandamál. Þetta eru skólar eins og Myndlistaskólinn í Reykjavík, Ljósmyndaskólinn, Kvikmyndaskóli Íslands, Klassíski listdansskólinn, Söngskólinn í Reykjavík og Söngskóli Sigurðar Demetz, allt skólar sem hafa náð eftirtektarverðum árangri.

Ég spyr um það hvernig staðið er að stuðningi ríkisins við listnám á framhalds- og háskólastigi sem fer fram við einkarekna listaskóla.

Ég spyr hvort ráðherra þyki það sanngjarnt að nemendur listaskóla þurfi að greiða margföld skólagjöld á við nemendur annarra skóla.

Ég spyr um þjónustusamninga við listaskólana og hvort húsnæðiskostnaður sé tekinn þar inn. Fer kannski stór hluti aflafjár skólanna í húsnæðiskostnað?

Ég spyr hvort gert sé ráð fyrir samningsbundnum launahækkunum kennurum til handa í samningum ríkisins við þessa skóla.

Og loks langar mig að vita hvort hæstv. ráðherra hafi áform um að endurskoða þessa samninga í ljósi erfiðrar stöðu margra þessara skóla.