149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

málefni einkarekinna listaskóla.

578. mál
[16:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og innganginn og sér í lagi fyrir að minnast á þessa merku listamenn, til að mynda er einn af mínum uppáhaldslistamönnum að sjálfsögðu David Bowie. Það var gaman að heyra á hann minnst í ræðustóli á Alþingi Íslendinga.

Þegar lög um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, giltu var fyrirkomulagið á þann hátt að í fjárlögum hvers árs kom fram hvaða einkareknu listaskólar skyldu fá framlög frá ríkinu. Stuðningurinn var ákveðinn á Alþingi. Ég ætla að fara í örstuttu máli yfir skipulagið á því hvað er búið að breytast í lögum um opinber fjármál og rekja mig í gegnum þær spurningar sem komu frá hv. þingmanni.

Við gildistöku laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, hinn 1. janúar 2016, breyttist þetta fyrirkomulag á þann veg að nú kemur það fram í fjárlögum hvaða framlög fara til ákveðinna málefnasviða. Með því er ákvörðun um stuðning við einkarekna listaskóla komin í hendur ráðuneytisins og ákvörðunin orðin að stjórnsýsluákvörðun, samanber 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Allt ferli við ákvörðun um stuðning við einkarekna listaskóla þarf því að fylgja meginreglum stjórnsýslulaga sem og ákvæðum 40. eða 42. gr. laga um opinber fjármál ásamt reglugerðum nr. 642/2018 og 643/2018. Staðan í dag er sú að ekki er búið að gera nýtt fyrirkomulag og meðan það er í vinnslu hafa samningar sem gerðir voru fyrir 1. janúar 2016 verið framlengdir um eitt ár í einu með viðauka.

Virðulegur forseti. Ég vil taka það fram að þetta eru talsverðar breytingar á rekstrarumhverfi þessara einkareknu skóla. Mér finnst mjög brýnt að við skoðum hvernig þetta er að koma út og við höfum gefið okkur ákveðinn tíma í að þróa reglugerðina. Ég er mjög meðvituð um að þetta getur stundum valdið óvissu sem ég harma og tel mjög áríðandi að við vinnum þetta mál þannig að þeir skólar, sem hafa verið að leggja grunninn að sérstaklega öflugu menningarlífi þjóðarinnar, þurfi ekki að vera í of mikilli óvissu um næstu ár. Það er eitt af leiðarljósunum þegar við endurskoðum reglugerðina, svo ég taki það fram hér í þingsal.

Virðulegi forseti. Ráðherrann er spurður að því hvort nemendur þessara skóla eigi að njóta sömu réttinda og sama stuðnings og nemendur við opinberu skólana. Einnig er ráðherrann spurður að því hvort sanngjarnt sé að þessir nemendur þurfi að greiða margföld skólagjöld á við nemendur við aðra skóla. Því er til svara að nemendur skóla sem eru með viðurkenningu sem einkaskóli á framhaldsskólastigi njóta allra sömu réttinda og nemendur við opinbera framhaldsskóla, enda starfa báðar skólagerðir á grundvelli laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008. Gjaldtökuheimildir opinberra skóla eru á grundvelli laga og reglugerða, en einkaskólar hafa frjálsari hendur hvað þetta varðar.

Fjölbreytt listnám á framhaldsskólastigi er í boði, bæði í opinberum og einkareknum skólum. Þegar ráðuneytið gerir þjónustusamning við viðurkenndan einkaskóla um námsframboð er horft til ýmissa þátta, svo sem hvort annað sambærilegt námsframboð er til staðar. Má flokka námið sem tómstundanám, liggur fyrir þarfagreining, er eftirspurn í námi til framtíðar eða má búast við að þörfin verði mettuð? Jafnframt er haft til viðmiðunar hvernig tengsl námsins eru við formlega skólakerfið. Þar skiptir máli að námslokin nýtist í áframhaldandi námi og störfum. Allir þessir þættir liggja til grundvallar þegar ákvörðun er tekin um þjónustusamning og fjárframlög. Það er síðan ákvörðun einkaskólans hvort og hversu há skólagjöld eru lögð á námið.

Þegar nemandinn velur listnám eru yfirleitt margir möguleikar í boði og það er í hans valdi að ákveða hvort hann velur opinberan skóla eða einkaskóla. Til dæmis fá nemendur í Listaháskóla Íslands fullt framlag frá ríkinu, en víða erlendis fá einkaskólar sem innheimta skólagjöld skert ríkisframlög. Skólanum er í sjálfsvald sett hvort hann innheimtir skólagjöld ofan á ríkisframlagið eða ekki. Verðflokkar listnámsins í reiknilíkani háskóla eru á bilinu 1,8–4,2 millj. kr., sem er hátt í samanburði við flest annað nám. Þegar ríkisframlagi til háskóla árið 2017 er deilt á fjölda ársnema kemur í ljós að framlag á hvern nemanda Listaháskólans er töluvert yfir meðaltali (Forseti hringir.) háskólanna. Það er því ljóst að stuðningur ríkisins til nemenda í listnámi á háskólastigi er í fullu samræmi við stuðning nemenda í opinberum háskólum.