149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

málefni einkarekinna listaskóla.

578. mál
[16:43]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég verð reyndar að segja að ég hefði gjarnan viljað að umræðan snerist um málefni einkarekinna skóla, ekki endilega listaskóla heldur einkarekinna skóla almennt. Ég held reyndar að full ástæða sé til að ræða hvaða umhverfi við búum slíkum skólum og þakka því hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina yfir hvernig þeim málum er háttað.

Ég hafði ekki áttað mig á því að lög um opinber innkaup væru að flækja þetta ferli eitthvað fyrir okkur. Ég vil ítreka hversu mikilvægt það er að það séu skýrir og góðir þjónustusamningar við aðila sem eru tilbúnir að taka að sér að reka hér gott nám, hvort sem það er á sviði lista eða einhvers annars, það geta verið leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar eða jafnvel háskólar, og mikilvægi þess að menntamálaráðuneytið hafi skýra stefnu í þeim efnum. Hvernig nám ætlum við að bjóða upp á? Hvaða kröfur setjum við þá á viðkomandi aðila? Og hver eru réttindi og skyldur nemenda?

Ég tek (Forseti hringir.) algjörlega undir að það er spurning þegar skólar fá full framlög frá ríkinu hvort þeir eigi líka rétt á að innheimta ótakmörkuð skólagjöld. Það kann að vera eitthvert misræmi í því fólgið. Ég held að ástæða sé til að fara yfir það og ræða.